2.3 C
Selfoss

Konur, Draumar & Brauð

Vinsælast

Upptökur á leiknu heimildarmyndinni, Konur, Draumar & Brauð hafa nú farið fram í fjórum landsfjórðungum. Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi. Myndin er skrifuð af þeim; Sigrúnu Völu Valgeirsdóttur og Svanlaugu Jóhannsdóttur en báðar leika þær hlutverk í myndinni og leikstýra jafnframt.

„Myndin fjallar um ómælt vinnuframlag kvenna sem reka kaffihús á landsbyggðinni bæði til síns nær-samfélags og ferðaþjónustunnar í heild, en líka drauma og dagdrauma okkar kvenna. Þessir staðir, þar sem heimagerðar veitingar eru bornar fram með hlýleika og gamaldags góðir gestrisni og upplýsingar um nærumhverfið veittar með bros á vör, eru þeir sem talað er um þegar heim er komið úr ferðinni,“ segir í tilkynningu frá höfundum.

„Tvær konur af sitthvorri kynslóð og með ólíka sýn á lífið fara hringferð um Ísland, hver með sitt erindi og koma við á 5 kaffihúsum. Allar konurnar „leika“ sjálfar sig og fáum við að kynnast draumum þeirra og dagdraumum, lífi og áskorunum.“

Kvennakórinn Ljósbrá á Suðurlandi, við upptökur á lagi sem þær flytja í myndinni ásamt hljóðkonunni Þurý Báru Birgisdóttur.

Gamla Fjós undir Eyjafjöllum, stofnað af Heiðu Björgu Scheving er fulltrúi Suðurlands í þessari skemmtilegu hringferð, en auk þess heimsóttu þær stöllur Kaffi Nesbæ í Neskaupstað, Frida Chocolate, á Siglufirði, Kaffi Litlabæ í Skötufirði og Samkomuhúsið Arnarstapa.

Á meðan þær Svana (Svanlaug Jóhanns, söng- og sögukona) og Agnes  (Agnes Eydal líffræðingur) fara hringinn og heimsækja kaffihúsin, þar sem Svana er að skrifa nýja útgáfu af leikritinu sínu, „Í hennar sporum“ og  Agnes að sinna brýnu erindi í Neskaupstað, þá er Sigrún að brasa við að baka vinningsköku fyrir Sólstöðuhátíðina undir Jökli og spákona fylgist með ferðinni.

Á hringferðinni fléttast sögur kvennanna við hringferðalagið og þær minnast minna og sagna sem hafa lifað í aldanna rás, ásamt því að hlýða á tónlist og söng, sem er ríkur þáttur verksins, þar sem söngur Svönu fær að njóta sín.

Unnur Stefánsdóttir tónskáld, hefur samið lag við ljóð Huldu „Gefðu mér jörð“ og annað „Söng Völvunnar“ við texta Sigrúnar Völu. Þá má m.a. hlýða á „Todo Cambia“ eftir Julio Numhauser og tónlíst eftir Argentínska tónskáldið Astor Piazolla og en það er Agnar Már Magnússon sem semur tónlistarstef fyrir myndina.

„Það hefur verið yndislegt að koma á alla þessa staði oft og mörgum sinnum undanfarin 3 ár við undirbúning og upptökur á kynningarefni og ekki síður að ná að ljúka tökunum. Myndin er nú í eftirvinnslu og er stefnt að því að ljúka henni síðar á árinu,“ segja þær að lokum.

Nýjar fréttir