2 C
Selfoss

Golfakademíu Fjölbrautarskóla Suðurlands hleypt af stokkunum

Vinsælast

Mikil gróska er í golfsenunni á Selfossi um þessar mundir en FSu og Golfklúbbur Selfoss hafa gert með sér samkomulag um að stofna Golfakademíu, sem mun bætast í hóp þeirra íþróttaakademía sem fyrir eru við skólann. Í akademíunum við FSu er íþróttaæfingum hjá úrvalsþjálfurum fléttað saman við nám á fjölmörgum námsbrautum. Alls munu 12 nemendur verða teknir inn á námsbrautina til að byrja með. Við ræddum málið við Hlyn Geir Hjartarson, framkvæmdastjóra Golfklúbbs Selfoss og Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara Fjölbrautarskóla Suðurlands.

Fleiri íþróttakrakkar fá tækifæri til að stunda sína íþrótt

„Við erum að bæta golfakademíunni við akademíuflóruna okkar í samstarfi við Golfklúbb Selfoss. Eftir að nýja aðstaðan kom hjá Golfklúbbi Selfoss fór boltinn fyrir alvöru af stað,“ segir Olga Lísa. Sem kunnugt er opnaði Golfklúbbur Selfoss glæsilega inniaðstöðu á dögunum sem lesa má um hér. Að sögn Olgu og Hlyns hefur málið komið til umræðu áður, en það gekk ekki upp þegar aðalæfingatíminn miðaðist við sumartímann þegar skólinn var ekki starfandi. Það breyttist með tilkomu nýju aðstöðunnar.

Aðspurð um hvaða þýðingu þetta hafi fyrir nemendur við skólann segir Olga: „Þetta gefur fleiri nemendum tækifæri til að stunda sínar íþróttir á skólatíma. Fyrir utan það að þau verða bara miklu betri golfarar á eftir. Þar með græða allir. Þau, klúbburinn, bæjarfélagið og hugsanlega þjóðin, hver veit!“.

Raðað inn í hópinn eftir forgjöf

Alls komast, eins og áður sagði, tólf einstaklingar að í námið að sinni. „Við þurfum að takmarka okkur við tólf og sjá svona hvort að það gengur. Ég hugsa nú að það séu fleiri sem vilji komast að en við veljum bara tólf,“ segir Olga. „Það verður raðað inn í hópinn eftir forgjöf. Þetta verður afrekshugsun, þetta er afreksbraut. Svo vonandi verða fleiri með tímanum. Það er leiðinlegt að þurfa að skera úr. Það er samt vonandi þannig að brautin verði það sterk að það þarf að kíkja á forgjöfina hjá kylfingunum og hún ráði för þegar þeir sækja um hjá akademíunni,“ segir Hlynur Geir.

Góð viðbót við það afreksstarf sem unnið er í GOS

Þegar Hlynur er inntur eftir því hvaða þýðingu þessi áfangi hafi fyrir klúbbinn segir hann: „Ég vil fyrst taka það fram að ég er búinn að vera að horfa með aðdáunaraugum á akademíu FSu síðan hún var stofnuð. Akademía FSu er búin að breyta íþróttalífi svæðisins algerlega. Þýðingin fyrir golfklúbbinn sjálfan er sú að við erum búin að vera með ákveðið afreksstarf og eigum orðið nokkra landsliðskrakka. Þetta er svo bara partur af því að halda áfram að byggja upp það starf. Þetta er ekkert endilega bara Golfklúbbur Selfoss, heldur bara fyrir allt Suðurland, og landið allt ef því er að skipta. Það eru fullt af efnilegum krökkum úti á landi sem ekki komast í afreksstarf og afreksþjálfun hjá menntuðum PGA – þjálfurum. Þá væri þetta mögulega leiðin þeirra. Fara í skóla í FSu og ná í afreksþjálfun í leiðinni.

Akademían hefur áhrif á skólamenninguna og framtíðina hjá krökkunum

Starfið í akademíunum hefur að sögn Olgu afar jákvæð áhrif inn í skólastarfið. Krakkarnir eru góðar fyrirmyndir og standa sig vel í námi. Þau eru skipulögð og kunna að fylgja reglum og sinna skólastarfinu af kostgæfni. Talið berst að því hvaða innlegg krakkarnir fá inn í framtíðina. „Við sem eldri erum og höfum verið í íþróttum vitum það, þrátt fyrir að íþróttaakademíur hafi ekki verið til þá, hvaða þýðingu það hefur að vera í afrekshugsun. Þá er þetta það sem drífur þig svolítið áfram og að því býr maður alla ævi. Þetta er ekki mælanlegt, en þetta er ofboðslega gott veganesti inn í framtíðina. Það er þessi ögun sem hefur svo mikil áhrif til lengri tíma. Þú lærir ákveðinn hugsunargang og lífsstíl sem verður alltaf með þér. Þá er oft talað um að ungafólkinu vanti seiglu, en íþróttaiðkun er mikil þjálfun í seiglu. Við óskum FSu og GOS til hamingju með glæsilegan og spennandi áfanga sem er góð viðbót við gróskumikið íþróttalíf innan veggja FSu.

Nýjar fréttir