-3.9 C
Selfoss

Endurnýjun fráveitunnar á Laugarvatni

Vinsælast

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um fráveitumál á Laugarvatni. Því langar mig til að fara aðeins yfir stöðuna á fráveitumálum á Laugarvatni, hvað hefur verið gert á síðustu árum og hvað er framundan.

Þegar fráveitan var lögð á Laugarvatni á sínum tíma var hún lögð af Sameignum skólanna (ríkinu) og var þá lagt einfalt fráveitukerfi um allt þorpið. Fór þá m.a. í sömu lögnina skólp, frárennsli af þökum og götum og affall af hitaveitunni. Þetta var vinnulagið á þessum tíma, en þessi aðferð er ekki viðurkennd í dag. Þegar sveitarfélagið tekur yfir verkefni sameigna skólanna er farið að leggja svokallað tvöfalt kerfi í nýjar götur.

Á sínum tíma, þegar núverandi hreinsistöð var byggð, átti hún að hreinsa allt það skolp sem barst inn í stöðina, en það mikla vatnsmagn sem barst í hreinsistöðina gerði það að verkum að virkni hreinsistöðvarinnar gat aldrei verið viðunandi. Því varð ljóst að eitthvað varð að gera. Sveitarstjórn ákvað því 2019 að ráðast í endurnýjun á fráveitunni. Ljóst varð strax í upphafi að um mikið og kostnaðarsamt verk var að ræða, byrja þurfti á því að kortleggja allar lagnir, hanna og ákveða legu fráveitunnar í öllu þorpinu.

Það var svo árið 2021 sem útboð á fyrsta áfanga verkframkvæmda fór fram og framkvæmdir hófust árið 2022. Lagt var upp með í byrjun að skipta verkinu upp í 6 áfanga. Ljóst var að um stórt og mikið verk var um að ræða, grafa þurfti nánast upp allt þorpið og leggja nýjar lagnir. Góð samvinna hefur verið með íbúum sem hafa þurft að breyta fráveitutenginum inni á sínum lóðum. Mikið rask hefur fylgt þessum framkvæmdum og er þakkarvert hvað íbúar hafa sýnt þessu mikla og góða þolinmæði. Á þessu ári er verið að vinna í áfanga númer 4.

Þessar framkvæmdir hafa kostað mikla fjármuni, frá árinu 2021 til dagsins í dag hafa þessar framkvæmdir kostað rúmlega 125 milljónir. Gera má ráð fyrir að heildarkostnaður við þessar framkvæmdir verði nálægt 300 milljónum þegar þeim lýkur. Ef við setjum heildarkostnað af þessari framkvæmd í samhengi við önnur sveitarfélög og íbúafjölda þeirra þá væri eins og Reykjavíkurborg myndi setja um 290 milljarða og Árborg 25 milljarða í fráveituframkvæmdir á sjö ára tímabili, það eru áætis fjármunir. Það er því öllum ljóst að um stóra og metnaðarfulla framkvæmd er að ræða með endurnýjun fráveitunnar á Laugarvatni.

Lokaáfangi verkefnisins er bygging hreinsistöðvar sem er mjög fjárfrek framkvæmd. Hreinsistöðin verður að vera lokaframkvæmdin, því hún mun ekki virka sem skyldi nema allt vatn hafi verið aðskilið frá skólpinu, hvort sem það er frá heimilum, stofnunum eða stórum ferðamannastöðum.

Mælingar hafa verið gerðar af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands í vatninu síðustu árin. Frá því að framkvæmdir hófust hefur ágætis árangur náðst, og ljóst er að við erum á réttri leið. Þegar heildarendurnýjun fráveitunnar verður lokið ætti fráveitan á Laugarvatni að vera til fyrirmyndar og við öll stolt af framkvæmdinni. Fyrir stuttu bárust fréttir af fólki sem hafði veikst illa af Nóróveiru eftir veru sína á Laugarvatni. Fyrirsagnir voru á þá leið að þetta væri vatninu að kenna en hluti af fólkinu hafði verið að synda í vatninu. Sýni voru tekin og kom í ljós að engin nóróveira var í vatninu. Ekki liggur fyrir með upptök nóróveirunnar en búið er að útiloka vatnið. Það er slæmt fyrir Laugarvatn þegar fyrirsagnir eru á þá leið að vatninu sé um að kenna, það er erfitt við þá umræðu að eiga. Endurnýjun fráveitunnar á Laugarvatni er á réttri leið og verður okkur öllum til sóma þegar henni lýkur.

Helgi Kjartansson,

oddviti Bláskógabyggðar.

Nýjar fréttir