Ungar barnafjölskyldur í Árborg standa frammi fyrir miklum áskorunum í dagvistunarmálum. Ríkið hefur ákveðið að lengd fæðingarorlofs sé eitt ár og stjórnvöld hafa jafnframt tekið þá afstöðu að báðir foreldrar þurfi almennt að vera á vinnumarkaði til að reka eigið heimili. Sveitarfélögin eiga því að brúa bilið að loknu fæðingarorlofi, samhliða því að þrýsta á ríkisvaldið um lengingu fæðingarorlofs.
Leikskólamál í lamasessi
Í sumar fórum við fjölskyldan af alvöru að kanna hvaða úrræði væru í boði hjá sveitarfélaginu Árborg að loknu fæðingarorlofi. Við vorum í þeirri stöðu að ljúka fæðingarorlofi í september 2025, ári eftir fæðingu frumburðar okkar. Við sóttum um leikskólapláss en fengum þær upplýsingar að við þyrftum að bíða fram á haustið 2026 eftir plássi í Árborg en leikskólar í sveitarfélaginu taka aðeins á móti nýjum börnum einu sinni á ári. Við þá ákveðnu inntöku verður sonur okkar orðinn 23 mánaða gamall.
Á svipuðum tíma og við fórum að huga að plássi á leikskóla kom einnig í ljós að við ættum von á öðru barni, í mars 2026, sem þýðir að annað fæðingarorlof tekur við.
Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði nema að hámarki 80% af meðallaunum, þar sem miðað er við heildarlaun síðustu 12 mánaða, sex mánuðum fyrir fæðingu. Fyrir þá sem voru í fæðingarorlofi á viðmiðunartímabilinu verður launaskerðingin því veruleg. Með annað barn á leiðinni og enn lægri orlofsgreiðslur en áður, varð ljóst að við þyrftum bæði að komast aftur út á vinnumarkað. Til þess var nauðsynlegt að finna lausn í dagvistunarmálum.
Slíkar lausnir eru hins vegar ekki til staðar í sveitarfélaginu. Fyrir utan leikskóla eru dagforeldrar starfandi í Árborg. Ekki er hlaupið að plássi hjá þeim og er kostnaðurinn töluvert hærri en leikskólagjöld.
Þungbær en óhjákvæmileg ákvörðun
Staðan hjá okkur var því annaðhvort að selja húsið og flytja í foreldrahús með bráðum tvö börn eða leita eftir dagvistunarþjónustu í öðru sveitarfélagi. Þetta er því miður nokkuð algengt. Við höfðum heyrt af mörgum íbúum Árborgar sem hafa neyðst til að flytja lögheimili sitt í annað sveitarfélag til að koma barni í dagvistun. Þá komast báðir aðilar á vinnumarkað og geta staðið undir skuldbindingum sínum, rekið heimilið sitt í Árborg og greitt þar há fasteignagjöld.
Í okkar tilfelli leiddi þessi staða til þeirrar þungbæru ákvörðunar að skrá lögheimili móður og barns hjá foreldrum mínum og í kjölfarið fengum við leikskólapláss. Hún getur sinnt vinnu, greitt útsvar og leikskólagjöld þar.
Þetta er algjörlega óboðleg staða fyrir sveitarfélagið Árborg. Hún er jafnframt ósanngjörn gagnvart öðrum sveitarfélögum sem hafa byggt upp innviði sína og veita þessa þjónustu, en þurfa svo einnig að taka á móti íbúum sem í raun búa í Árborg. Þau fá vissulega útsvarið frá ungu og vinnandi fólki, en staðan í heild er engu að síður röng. Þetta er sambærileg staða og uppi er í Reykjavík gagnvart nágrannasveitarfélögum þar, ef ekki verri.
Við veltum því einnig fyrir okkur hvort eina raunhæfa lausnin fyrir ungt fólk í barneignum væri einfaldlega að flytja. Við skoðuðum bæði lóðir og íbúðir í nágrannasveitarfélögum, sem öll hafa fundið lausnir á dagvistunarvandanum. Ég er hins vegar, í eðli mínu, mikill keppnismaður og hef bæði metnað og vilja til þess að bæta hlutina. Eftir margar samræður við fjölskyldu, vini og vandamenn, þar sem spurningar komu upp á borð við „ætlar þú ekki bara að flytja?“ eða „verður þú ekki bara að bjóða þig fram og laga þetta?“, tók ég þá ákvörðun að sækjast eftir 1. sæti á lista Framsóknar í Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og leiða vinnu að úrbótum.
Er tækifæri til að gera betur?
Ég fjallaði um málefni barnafjölskyldna í grein sem ég birti í haust. Bæjarstjóri svaraði með grein í kjölfarið þar sem hann fór yfir það sem hefði verið gert á kjörtímabilinu í málefnum barnafjölskyldna. Þar ber helst að nefna hækkun á niðurgreiðslu til foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra. Það er vel og mætti sú niðurgreiðsla vera enn hærri, enda ódýrari lausn fyrir sveitarfélagið en rekstur leikskóla.
Einnig taldi bæjarstjóri upp tækifæri til úrbóta og nefndi þar helst þátt ríkisins í þessum vanda og nauðsyn þess að lengja fæðingarorlof. Þá stendur einnig til að fjölga leikskólaplássum um fjörutíu á árinu, í takt við áherslur meirihlutans um góða þjónustu við barnafjölskyldur.
Ég er einfaldlega ósammála núverandi meirihluta. Við erum ekki að gera nóg og íbúar eru ekki að finna fyrir breytingum þrátt fyrir þessar áherslur. Leikskólaplássum er ekki að fjölga nægilega til að mæta bæði biðlistum og fjölgun íbúa.
Nágrannasveitarfélög okkar bjóða upp á leikskólapláss frá 12 mánaða aldri eða heimgreiðslur fái barn ekki pláss á leikskóla. Sum sveitarfélög ganga enn lengra og gefa foreldrum val um hvort þeir vilji senda barn á leikskóla eða vera lengur heima með barninu og fá þá heimgreiðslur að loknu fæðingarorlofi. Þetta hefur verið til umræðu frá því snemma á kjörtímabilinu í Árborg, en ekkert hefur verið framkvæmt eða ákveðið í þeim efnum.
Þá eru hér einnig einstæðir foreldrar, foreldrar í námi og fleiri sem þurfa aðstoð sveitarfélagsins til að brúa þetta bil. Að fjárfesta í ungum fjölskyldum, einstæðum foreldrum og/eða námsfólki mun margborga sig til lengri tíma.
Það sem ég tel vera áherslur um góða þjónustu við barnafjölskyldur er eftirfarandi: Í fyrsta lagi þarf að bjóða upp á heimgreiðslur. Nágrannasveitarfélögin greiða allt frá 110.000 kr. til 180.000 kr. Sveitarfélagið er nú þegar að niðurgreiða daggæslu hjá dagforeldrum fyrir svipaðar upphæðir, eða 92.301 kr. fyrir 18 mánaða og yngri og 124.200 kr. fyrir 18 mánaða og eldri. Þetta eru mun lægri upphæðir en þær sem sveitarfélagið þarf að greiða með börnum á leikskóla.
Á sama tíma þarf að ráðast í uppbyggingu leikskóla og beita öllum tiltækum leiðum til að laða fólk til starfa í leikskólum sveitarfélagsins. Það tekur tíma og því eru heimgreiðslur sú leið sem þarf að fara strax til að brúa bilið þar til sveitarfélagið nær að stytta biðlista eftir leikskólaplássi.
Við erum að missa ungt fjölskyldufólk til annarra sveitarfélaga, við erum að verða af útsvarstekjum og við erum ekki að standa okkur í þjónustu við hóp sem virkilega þarf á henni að halda.
Við höfum tækifæri til að gera betur. Grípum það.
Matthías Bjarnason
Frambjóðandi til 1. sætis í prófkjöri Framsóknar í Árborg til sveitarstjórnarkosninga 2026 og varabæjarfulltrúi.


