-4 C
Selfoss

Kappahl opnar verslun á Selfossi

Vinsælast

Í vor mun sænska tískuvörumerkið Kappahl opna verslun á Selfossi, á þeim stað þar sem Lindex er nú til húsa. Opnunin er hluti af stærri innkomu Kappahl á íslenskan markað, þar sem alls munu opna átta Kappahl-verslanir og að minnsta kosti ein Newbie-verslun víðs vegar um landið. Í samtali við Dagskrána segir Albert að markmiðið sé að bjóða Sunnlendingum upp á allt það besta sem Kappahl group hefur upp á að bjóða.

Verslanirnar verða opnaðar í gegnum sérleyfissamning við LKA19 ehf., fyrirtæki í eigu hjónanna Lóu Dagbjört Kristjánsdóttur og Albert Þórs Magnússonar. Þau hafa um árabil rekið og byggt upp þekkt tískuvörumerki á Íslandi og verða nú fyrst í heiminum til að taka að sér sérleyfisrekstur Kappahl Group.

„Íslenskir viðskiptavinir hafa lengi óskað eftir okkar sterku vörumerkjum og nú þegar við höfum fundið frábæran samstarfsaðila er tímasetningin fullkomin til að stíga inn á íslenska markaðinn,“ segir Elisabeth Peregi, forstjóri Kappahl Group. Hún segir Ísland afar mikilvægt markaðssvæði fyrir fyrirtækið og lýsir mikilli eftirvæntingu með samstarfið við Lóu og Albert.

„Albert og Lóa hafa sýnt fram á einstaka hæfni í uppbyggingu tískuvörumerkja á Íslandi. Við gætum ekki hugsað okkur betri samstarfsaðila til að leiða þetta sögulega skref fyrir Kappahl og Newbie,“ bætir Peregi við.

Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir.

Undirbúningur nýrra verslana er þegar hafinn og er gert ráð fyrir að þær opni í vor í helstu verslunarmiðstöðvum á höfuðborgarsvæðinu sem og víða á landsbyggðinni. Þar á meðal verður opnun Kappahl-verslunar á Selfossi, sem styrkir enn frekar stöðu bæjarins sem öflugs verslunarkjarna á Suðurlandi. Samhliða verslunaropnunum verða netverslanirnar kappahl.is og newbie.is opnaðar.

„Við höfum dáðst að Kappahl og Newbie í mörg ár, ekki aðeins fyrir skandinavíska hönnun og gæði, heldur einnig fyrir gildi fyrirtækisins og leiðandi stöðu í sjálfbærni,“ segja Albert og Lóa. „Að vera valin fyrsti sérleyfishafi Kappahl Group á heimsvísu er mikill heiður og við hlökkum til að taka á móti íslenskum viðskiptavinum inn í heim Kappahl og Newbie.“

Dagsetningar opnana einstakra verslana verða kynntar síðar.

Nýjar fréttir