Það er óhætt að fullyrða að árið 2025 verður eftirminnilegt ár fyrir 2011 strákana í handboltanum á Selfossi. Eftir glæsilegt keppnistímabil þar sem liðið tryggði sér bæði Íslands- og bikarmeistaratitla í 5.flokki (eldra ár), héldu þeir utan til Gautaborgar milli jóla og nýárs til að taka þátt í Norden Cup 2025.
Norden Cup er mót þar sem aðeins lið sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í sínum löndum eða svæðum á Norðurlöndunum fá boð um þátttöku. Ferðin var því ekki aðeins keppnisverkefni heldur einnig viðurkenning fyrir strákana og á því starfi sem unnið hefur verið í kringum þennan öfluga hóp á Selfossi. Á mótinu mæta jafnan um 2000 keppendur og liðin koma víðs vegar að af Norðurlöndum.
Sterk byrjun – og skemmtileg stemning
Ferðin hófst snemma þann 26.des með smávægilegri seinkun á flugi en eftir það gekk ferðalagið út eins og í sögu og strákarnir komu sér fyrir í Gautaborg.
27. des var tekinn snemma í morgunmat og undirbúningi en svo var létt á spennunni og farið í Liseberg skemmtigarðinn þar sem fyrsti leikur var ekki fyrr en í lok dags. Í fyrsta leik mótsins mættu þeir Halmstad. Byrjunin var róleg, bæði lið að finna taktinn og aðlaga sig að dómurum og andstæðingi, en varnarleikur Selfyssinga þéttist hratt og auðveld mörk fóru að detta inn. Lokatölur urðu öruggur sigur, 18–29 – frábær byrjun á mótinu.
Fullt hús í riðli – fagmennska og yfirvegun
Á öðrum degi voru tveir leikir á dagskrá. Fyrst mættu strákarnir Ålgård í uppgjöri liðanna sem höfðu unnið sína leiki á fyrsta degi. Þetta var sterkur andstæðingur sem Selfoss hafði mætt árið áður, en strákarnir sýndu góðan leik og áttu frábæran seinni hálfleik og unnu 21–26.
Í síðari leik dagsins mættu þeir Linköping, leik sem gat verið varasamur þar sem þeir höfðu ekki enn unnið leik á mótinu og komu ákveðnir til leiks. En Selfyssingarnir sýndu yfirvegun, spiluðu fagmannlega og kláruðu örugglega 27–22. Liðið náði líka að rúlla vel á mannskapnum og jafnvel markmaðurinn Halldór fékk hvíldartíma þegar hann fékk tveggja mínútna og þá sýndi Einar Ben sýndi skemmtileg tilþrif í rammanum.
Með þessum úrslitum var ljóst að Selfoss vann riðilinn með fullt hús stiga og tryggði sér sterka stöðu inn í útsláttarkeppnina.
Útsláttarleikir: kraftur, hraði og stórsigur
Í átta liða úrslitum mættu þeir Stjörnunni og mátti búast við hörkuleik þar sem þessi lið háðu harða baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Stjarnan byrjaði betur, en þeir vínrauðu fundu fjölina sína, leiddu 11–8 í hálfleik og héldu síðan áfram af fullum krafti í seinni hálfleik. Lokaniðurstaða: stórsigur 22–14 og sæti í undanúrslitum tryggt.
Þar beið sænska liðið Alingsås, sem einnig hafði unnið sinn riðil með fullt hús stiga. Leikurinn byrjaði með miklum hraða sem okkar menn voru meira en til í og réðu Svíarnir á endanum ekki við hraðann. Okkar strákar leiddu 17–12 í hálfleik og héldu síðan áfram að keyra og endaði með öruggum sigri, 34–22.
Þar með var ljóst að Selfoss var komið í úrslit í flokki 2011 drengja.
Úrslitaleikur og gullið heim
Í úrslitum mættu þeir Kungälvs HK, sterku liði frá Vestur-Gautlandi sem hafði sýnt mikinn styrk og voru ríkjandi Norden Cup meistarar frá árinu á undan. Selfyssingarnir fóru vel af stað, en snemma leiks varð liðið fyrir áfalli þegar Gabriel meiddist en aðrir stigu upp og héldu strákarnir dampi en voru marki undir í hálfleik.
Í seinni hálfleik fékk örvhent skytta Svíanna rautt spjald eftir klaufalegt brot og eftir það var meira stress hjá heimamönnum og Selfyssingar gengu á lagið, spiluðu af festu og kláruðu leikinn af öryggi – lokatölur: 30–21.
Með þessum sigri urðu strákarnir fyrsta liðið frá Selfossi til að vinna gull á Norden Cup – frábær árangur hjá strákunum og þjálfarateyminu.
Framtíðin björt
Segja má að strákarnir eigi hrós skilið eftir þessa ferð, þeir unnu alla sína leiki á mótinu, tryggðu sér Norden Cup titilinn og voru félaginu til sóma í alla staði. Ferðin var einnig dýrmæt reynsla fyrir hópinn, bæði innan vallar og utan – og mikilvægur liður í að byggja enn sterkari grunn til framtíðar.
Sérstakar hamingjuóskir fá strákarnir og þjálfarateymið sem fylgdi þeim, Árni Ísleifs og Aron Darri, fyrir frábæran árangur og faglega vinnu sem skilaði sér alla leið í gullið.
Þakkir til stuðningsaðila
Svona verkefni væru ekki möguleg án öflugs stuðnings og vill liðið, þjálfarar og foreldrar færa öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem styrktu ferðina bestu þakkir fyrir frábæran stuðning – hann skilar sér beint inn á völlinn og hjálpar strákunum að safna ómetanlegri reynslu.
Styrktaraðilar
Geysir ehf, Óli Raftengill, Kotlaugar ehf, Landsvirkjun, JÁ VERK, Asset ehf, Kallinn byggir, Jiiibbííí ehf, Vatnsvirkinn, K16 ehf, Þaklagnir GTS ehf, YES eu ehf, Art Hostel ehf, H verslun, Fossi ehf, J.Ó. smíði, 800 lagnir, Smiðjan Brugghús, Pípulagnir Suðurlands og allir sem keyptu snakk af strákunum í aðdraganda móts.
Takk fyrir að standa með strákunum – saman gerum við svona afrek möguleg!
Aðsend grein



