3.5 C
Selfoss

Ísveisla á Laugarvatni

Vinsælast

Um 130 manns tóku þátt í sannkallaðri ísveislu á Laugarvatni laugardaginn 17. janúar. Þar fékk fólkið tækifæri til að prófa ýmislegt sem hægt er að gera á ís, svo sem fara á skauta, fara í krullu, veiða í gegnum dorgholu og skauta á ísilögðu vatninu. Fólk kom víðs vegar að af Suðurlandi til að taka þátt í viðburðinum, svo sem fólk sem dvaldi í orlofshúsum KÍ á Flúðum en heyrði fréttainnslag Magnúsar Hlyns fjölmiðlamanns í útvarpi.

Viðburðurinn var samstarfsverkefni Ungmennafélags Laugdæla, heilsueflandi Bláskógabyggðar, Heilsueflandi samfélags í Grímsnes- og Grafningshreppi og svæðisskrifstofu íþróttahéraða á Suðurlandi og er hluti af íþróttaviku Evrópu.

Frosttímabilið hefur verið nokkuð í Bláskógabyggð og var ísinn á vatninum 15 sentímetra þykkur. Hann hélt öllum gestum, sem þrátt fyrir það voru hvattir til að fara varlega, sérstaklega við inn- og útósa vatnsins.

Áður en fólki var hleypt út á ísinn var ísþykktin metin og farið yfir öll þau atriði sem fólk þurfti að hafa í huga til að passa sig og koma í veg fyrir slys. Allir þátttakendur voru sem dæmi hvattir til að hafa hjálm á höfði.

Viðburðurinn heppnaðist með eindæmum vel, að sögn Rakelar Magnúsdóttur, annars af tveimur svæðisfulltrúum íþróttahéraðanna á Suðurlandi.

Margt skemmtilegt var í boði og margt af því heimagert, þar á meðal krullan, sem var úr viði í Haukadalsskógi, íshokkí og hægt að skauta. Þau sem ekki áttu ekki skauta þurftu ekki að örvænta því til útláns voru skautar af stærðinni 37–45.

Kveikt var upp í varðeldi á ísnum og tóku margir með sér pinnabrauðsdeig til að njóta við eldinn. Auk þess var boðið upp á kaffi, kakó og heitt saft að norskum sið. Að viðburðinum loknum var ókeypis í sund í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni.

Rakel segir fólk hafa verið gríðarlega ánægt með viðburðinn og því stefnt á að endurtaka hann að ári.

Mynd: UMFÍ
Mynd: UMFÍ

Nýjar fréttir