-4.4 C
Selfoss

Ása Lind Wolfram er íþróttamaður Hveragerðisbæjar árið 2025

Vinsælast

Afreksfólk Hveragerðisbæjar í íþróttum var heiðrað við hátíðlega athöfn í Listasafni Árnesinga á þrettándanum þar sem Ása Lind Wolfram körfuboltamaður var kjörin íþróttamaður ársins 2025. Við sama tækifæri voru veittar viðurkenningar til íþróttafólks sem hefur skarað fram úr á liðnu ári með stórum titlum eða þátttöku í landsliði.

Ása Lind er Hvergerðingur og uppalin í Íþróttafélaginu Hamri Hveragerði. Undanfarin ár hefur hún spilað körfubolta með Aþenu, nú síðast í Bónus deildinni sem er efsta deildin á Íslandi.

Mynd: Ívar Sæland

Síðastliðið sumar var Ása Lind valin í U-20 ára landslið Íslands í körfubolta sem spilaði í A deild Evrópumótsins. Liðið náði frábærum árangri og komst í 8 liða úrslit A deildar, en liðið var í fyrsta sinn að spila í deild hinna bestu. Ása Lind var einn af lykilleikmönnum liðsins sem náði þessum sögulega árangri. Nú í sumar gerði hún samning við Idaho State í Bandaríska háskólaboltanum. Þar stundar hún nám og spilar körfubolta við bestu aðstæður í Big Sky hluta fyrstu deildar bandaríska háskólaboltans.

Eftir frábært sumar með U-20 ára landsliði Íslands sem náði sögulegum árangri í A deild Evrópumótsins og með því að tryggja sér skólavist með fullum skólastyrk í efstu deild Bandaríska háskólaboltans er Ása Lind vel komin að þeirri viðurkenningu að vera íþróttamaður Hveragerðisbæjar fyrir árið 2025.

Mynd: Ívar Sæland

Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd Hveragerðisbæjar tekur við tilnefningum í lok hvers árs og velur íþróttamann ársins.

Eftirfarandi íþróttamenn fengu viðurkenningu fyrir afrek sín á árinu 2025:

Ása Lind Wolfram
Viðurkenning fyrir þátttöku í U20 landsliði Íslands í körfuknattleik

Eric Máni Guðmundsson
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil (MX2) og þátttöku í landsliði Íslands í motocrossi 

Hafsteinn Valdimarsson
Viðurkenning fyrir þátttöku í A-landsliði Íslands í blaki

Kristján Valdimarsson
Viðurkenning fyrir þátttöku í A-landsliði Íslands í blaki

Hrund Guðmundsdóttir
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil í badminton

Þórhallur Einisson
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil í badminton

Hulda María Hilmisdóttir
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil í badminton

Brynjar Óðinn Atlason
Viðurkenning fyrir þátttöku í landsliði U17 í knattspyrnu

Markús Andri Martin
Viðurkenning fyrir þátttöku í landsliði U16 og U17 í knattspyrnu

Anna Guðrún Halldórsdóttir
Viðurkenning fyrir Evrópumeistaratitil í ólympískum lyftingum

Mynd: Ívar Sæland

Átta tilnefningar bárust til kjörsins Íþróttamaður Hveragerðis 2025 og voru eftirfarandi íþróttamenn tilnefndir:

Úlfur Þórhallsson, badminton
Hafsteinn Valdimarsson, blak
Brynjar Óðinn Atlason, knattspyrna
Atli Þór Jónasson, knattspyrna
Ása Lind Wolfram, körfuknattleikur
Anna Guðrún Halldórsdóttir, lyftingar
Eric Máni Guðmundsson, motocross
Guðbjörg Valdimarsdóttir, crossfit

Nýjar fréttir