Afreksfólk Hveragerðisbæjar í íþróttum var heiðrað við hátíðlega athöfn í Listasafni Árnesinga á þrettándanum þar sem Ása Lind Wolfram körfuboltamaður var kjörin íþróttamaður ársins 2025. Við sama tækifæri voru veittar viðurkenningar til íþróttafólks sem hefur skarað fram úr á liðnu ári með stórum titlum eða þátttöku í landsliði.
Ása Lind er Hvergerðingur og uppalin í Íþróttafélaginu Hamri Hveragerði. Undanfarin ár hefur hún spilað körfubolta með Aþenu, nú síðast í Bónus deildinni sem er efsta deildin á Íslandi.

Síðastliðið sumar var Ása Lind valin í U-20 ára landslið Íslands í körfubolta sem spilaði í A deild Evrópumótsins. Liðið náði frábærum árangri og komst í 8 liða úrslit A deildar, en liðið var í fyrsta sinn að spila í deild hinna bestu. Ása Lind var einn af lykilleikmönnum liðsins sem náði þessum sögulega árangri. Nú í sumar gerði hún samning við Idaho State í Bandaríska háskólaboltanum. Þar stundar hún nám og spilar körfubolta við bestu aðstæður í Big Sky hluta fyrstu deildar bandaríska háskólaboltans.
Eftir frábært sumar með U-20 ára landsliði Íslands sem náði sögulegum árangri í A deild Evrópumótsins og með því að tryggja sér skólavist með fullum skólastyrk í efstu deild Bandaríska háskólaboltans er Ása Lind vel komin að þeirri viðurkenningu að vera íþróttamaður Hveragerðisbæjar fyrir árið 2025.

Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd Hveragerðisbæjar tekur við tilnefningum í lok hvers árs og velur íþróttamann ársins.
Eftirfarandi íþróttamenn fengu viðurkenningu fyrir afrek sín á árinu 2025:
Ása Lind Wolfram
Viðurkenning fyrir þátttöku í U20 landsliði Íslands í körfuknattleik
Eric Máni Guðmundsson
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil (MX2) og þátttöku í landsliði Íslands í motocrossi
Hafsteinn Valdimarsson
Viðurkenning fyrir þátttöku í A-landsliði Íslands í blaki
Kristján Valdimarsson
Viðurkenning fyrir þátttöku í A-landsliði Íslands í blaki
Hrund Guðmundsdóttir
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil í badminton
Þórhallur Einisson
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil í badminton
Hulda María Hilmisdóttir
Viðurkenning fyrir Íslandsmeistaratitil í badminton
Brynjar Óðinn Atlason
Viðurkenning fyrir þátttöku í landsliði U17 í knattspyrnu
Markús Andri Martin
Viðurkenning fyrir þátttöku í landsliði U16 og U17 í knattspyrnu
Anna Guðrún Halldórsdóttir
Viðurkenning fyrir Evrópumeistaratitil í ólympískum lyftingum

Átta tilnefningar bárust til kjörsins Íþróttamaður Hveragerðis 2025 og voru eftirfarandi íþróttamenn tilnefndir:
Úlfur Þórhallsson, badminton
Hafsteinn Valdimarsson, blak
Brynjar Óðinn Atlason, knattspyrna
Atli Þór Jónasson, knattspyrna
Ása Lind Wolfram, körfuknattleikur
Anna Guðrún Halldórsdóttir, lyftingar
Eric Máni Guðmundsson, motocross
Guðbjörg Valdimarsdóttir, crossfit


