Það var sérkennilegt sem forsvarsmaður íþróttafélags að fylgjast með fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra í dag, 14. janúar. Einn af dagskrárliðum fundarins var frístundastyrkir, en frístundastyrkir hafa verið í boði í sveitarfélaginu frá árinu 2023.
Umræðan var um víðan völl, rætt var nýting frístundastyrks, hvort hann væri að skila sér og loks var þróun æfingagjalda hjá Íþróttafélögum í Rangárþingi ytra til umræðu. D-listinn í Rangárþingi ytra, sem að hefur frá upphafi sett fyrirvara um frístundastyrkinn, bókaði um málið. Rýnum aðeins í bókun D-listans:
Í bókun D-listans er velt því fyrir sér hvers vegna aðeins 83% væru að nýta sér styrkinn, hvað með hin 17% sem gera það ekki og í kjölfarið var umræða um það hvort að mögulega væri um að ræða börn af erlendum uppruna. Skemmst er frá því að segja að 83% er á allan mælikvarða mjög gott hlutfall nýtingar sem þekkist varla í öðrum sveitarfélögum. Hvað þau 17% varðar sem ekki nýta styrkinn og hvort það séu börn af erlendum uppruna, þá getur það vel verið og er ályktun undirritaðs að það sé tilfellið, en má þar benda á að Ungmennafélagið Hekla hefur t.d. fengið styrk úr hvatasjóði ÍSÍ og UMFÍ fyrir verkefni um inngildingu barna af erlendum uppruna upp á 350.000 kr. Þannig að það sem upp úr stendur er að 83% hlutfall er gott og vinna er hafin við að ná til þeirra sem upp á vantar.
Í bókun D-lista er það tekið fram að þau hafi haft áhyggjur af því að innleiðing frístundastyrks myndi hafa í för með sér hækkun æfingagjalda sem að nú hafi raungerst. Nefna þau þar dæmi um að æfingagjöld ákveðinna flokka KFR hafi hækkað um 36% á sama tíma og launavísitala hafi aðeins hækkað um 17%. Tekið er fram að svipuð dæmi sé að finna hjá öðrum félögum, þar á meðal félagi undirritaðs. Í stuttu máli var staðan sú fyrir tilkomu frístundastyrks að æfingagjöld félaganna voru hlægilega lág, starfið ekki jafn faglegt, fjárhagur íþróttafélaganna var milli steins og sleggju og óheyrilegt álag var á sjálfboðaliðum félaganna við að fjármagna það sem upp á vantaði til að niðurgreiða starfið til foreldra og iðkenda. Er það nostalgían sem að D-listinn vill? Minni faglegheit, verri fjárhagur íþróttafélaga og sjálfboðaliðar sem að brenna út? En rýnum aðeins í tölurnar að baki þessara hækkana og sem liggja að baki íþróttastarfinu.
Byrjum á því að hafa á hreinu hver kostnaður við starfið er. Ef að 1 klst af æfingum á viku með einum þjálfara á að standa undir sér þarf önnin að kosta 15.000 kr. og lágmarksfjöldi iðkenda að vera 15 stk. Er þá ótalinn kostnaður við aðstoðarþjálfara og keppni. Höfum einnig í huga að ungmennafélagið Hekla er lítið félag og ekki sjálfsagt að iðkendahópar nái alltaf að vera 15 eða fleiri.
Berum þá saman verðþróun tveggja æfingahópa. Körfuknattleikur fyrir iðkendur í 7-10 bekk kostaði haustið 2022 11.000 kr., æfingar voru 2 klst. á viku og frjálsíþróttir fyrir iðkendur í 1-2 bekk kostaði 5.500 kr., æfingar voru 1 klst. á viku.
Fyrsta haustið eftir tilkomu frístundastyrks var kostnaður vegna körfubolta 7.-10. bekkjar kominn í 18.500 kr, æfingar voru 2 klst á viku, og frjálsíþróttir í 1-2. bekk kostuðu 12.500 kr, æfingar voru 1 klst í viku.
Þar má sjá að eftir tilkomu frístundastyrks hækkuðu æfingagjöldin vissulega lítillega, en kostnaðarbyrði foreldra minnkaði umtalsvert. Þátttaka jókst, kostnaðarbyrði foreldra minnkaði og betri horfur voru fyrir rekstri íþróttafélaganna. Er þetta ekki skýrt dæmi um það að innleiðing frístundastyrkja hafi borið árangur?
Ef við tökum stöðuna á þessum æfingahópum í dag þá kostar körfubolti 7–10 bekkjar vorið 2026 heilar 21.500 kr. Æfingar eru 3 klst á viku.
Þannig hefur þróun á verðlagi 1 klst æfingar í körfuknattleik 7–10 bekkjar verðið eftirfarandi:
-Haust 2022: 5.500 kr. per klst
-Haust 2023: 9.250 kr. per klst
-Vor 2026 7.167 kr. per klst
Og munum nú og höfum í huga að 1 klst þarf að kosta að lágmarki 15.000 kr. til að æfingagjöldin ein og sér standi undir sér. Ungmennafélagið Hekla hefur ALDREI rukkað fyrir sínar æfingar þannig að æfingagjöldin standi undir kostnaði.
Sama má segja um frjálsíþróttir í 1-2 bekk, en frá haustinu 2024 hefur Ungmennafélagið Hekla boðið upp á það að greitt sé eitt gjald og að börn geti æft allar íþróttagreinar. Haustið 2024 var það gjald 21.500 kr. og æfingar í boði 4,75 klst á viku, sem að kemur út í 4.526 kr. per klst.
Það er nauðsynlegt að svara málflutningi sem þessum með tölum, gögnum og rökum. Við búum við ómetanleg lífsgæði í íþrótta- og æskulýðsstarfi í Rangárþingi ytra og frístundastyrkur hefur verið lyftistöng í að bæta þau lífsgæði.
Ég vona að fulltrúar D-listans sjái sér fært að lesa þessa grein og um leið langar mig að bjóða þau velkomin í nútímann og að hætta þessari þráhyggju gagnvart því sem áður var, sem er endurtekið búið að sýna fram á að var umtalsvert verra og sú þróun sem hefur orðið hefur orðið til hins betra.
Ekki veit ég í þágu hverra þessi málflutningur D-listans er, en hann er ekki í þágu fjölskyldna, barna og ungmenna, íþróttafélaga eða samfélagsins í Rangárþingi ytra í heild og ég er efins um að hann skili sér í kjörkassann.
Ástþór Jón Ragnheiðarson
Formaður Ungmennafélagsins Heklu



