Góðan dag kæru Sunnlendingar,
Vikuna 12.–15. janúar fór hið árlega og afar vinsæla Þórismót fram í Menntaskólanum að Laugarvatni. Þórismót er fjögurra daga íþróttamót þar sem 1., 2. og 3. bekkur etja kappi í hinum ýmsu greinum, undir stjórn íþróttaformanna. Í ár voru það þeir Vésteinn Loftsson og Reynir Ingi Helgason sem sáu um skipulagið og völdu íþróttirnar af mikilli snilld.
Keppnin hófst á mánudegi með fjörugu blaki, þar sem 3. bekkur sigraði. Á þriðjudeginum tók brennóið við með miklum tilþrifum og var það aftur 3. bekkur sem sigraði það. Síðan á miðvikudeginum var körfubolti á dagskrá þar sem 2. bekkur vann og lauk mótinu svo á fimmtudeginum með spennandi fótboltaleikjum. Óhætt er að segja að stemningin var rafmögnuð alla vikuna og keppnin afar jöfn í öllum greinum.

Að lokum stóðu 2. og 3. bekkur jöfn að stigum og því þurfti að grípa til úrslitaleiks í skák til að skera úr um sigurvegara. Skák leikurinn var æsispennandi og hélt áhorfendum á tánum allt til loka, en að endingu var það 2. bekkur sem hafði betur. Þar með var 2. bekkur krýndur sigurvegari Þórismótsins 2026.
Elena R. Marquez Gunnlaugsdóttir,
ritnefndarformaður nemendafélagsins Mímis.



