-4.4 C
Selfoss

Sunnlendingar í Jólaskapi

Vinsælast

Í aðdraganda jólanna höfðum við samband við nokkra sunnlendinga í jólaskapi og fengum að vita aðeins um þeirra jólahefðir og minningar…

Ívar Dagur Sævarsson

Jólin koma þegar… jólin koma þegar að pabbi biður um aðstoð við að hengja upp útijólaljósin. Ég hef ekki orðið að þeirri bón öll mín ár.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Fyrir þó nokkrum árum lá ég andvaka á Þorláksmessu, aðfaranótt aðfangadags og fann mig knúinn til að sæfa mig með því að hlusta á tónlist. Fyrir valinu varð lagið Money for nothing með Dire Straits. Lagið leiddi mig til ljúfs svefs sem leiddi til orkumikils Aðfangadags. Annars verða mér alltaf minnisstæð hver jól þar sem ég fæ að setja saman LEGO. Hvort sem það er fyrir mig eða fjölskylduna.

Hvað er á jólaborðinu? Hamborgarhryggur, brúnaðar kartöflur, grænar baunir, malt og appelsín. Mamma fær sér ananas. Ég læt það vera.

Uppáhalds jólamynd? Ég legg það ekkert endilega í vana minn að horfa á margar jólamyndir hver jól. Myndin Elf með Will Ferrel þykir mér góð sem og gömlu Disney teiknimyndirnar. Þær gefa manni smá sól í hjarta í myrkri desembermánaðar.

Uppáhalds jólasveinn? Þeir eru nokkrir sem koma til greina, en fleiri sem koma ekki til greina. Ég vorkenni þeim flestum þar sem þeir virðast allir vera furðufuglar upp til hópa. Ætli ég tengi ekki mest við Gáttaþef, sælkeri með gott nef. Spurning hvort hann sé með gott eyra?

Svanhildur Ólafsdóttir

Jólin koma þegar… allir krakkarnir mínir eru komnir heim, hangikjötslyktin liggur yfir húsinu, Frostrósir hljóma í hátalaranum og jóla-aspassúpan kraumar í pottinum.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Ég á margar góðar jólaminningar og finnst samvera með fjölskyldunni skipta öllu máli á jólunum. Tvö uppáhalds jólin mín sem geyma dásamlegar minningar voru þegar við fjölskyldan vorum í bústað um jólin. Allt á kafi í snjó, algjör kyrrð, samvera, spilað, slökun og ekkert stress.

Hvað er á jólaborðinu? Ég er alin upp við uppbakaða jóla-aspassúpu sem mamma gerði alltaf og er minn allra uppáhalds matur. Súpan er alltaf í forrétt hjá okkur á aðfangadag og svo borðum við hamborgarahrygg og fáum okkur konfekt ístertu í eftirrétt.

Uppáhalds jólamynd? Ég á í rauninni enga uppáhalds jólamynd en horfi gjarnan á drama og rómantískar myndir og finnst The Holiday alveg eldast vel.

Uppáhalds jólasveinn? Þegar ég var krakki þá var kertasníkir alltaf í uppáhaldi af því hann laumaði oft einhverju aðeins meira í skóinn heldur en bræður hans. Hann virðist hafa haldið þeirri venju áfram og enn fá allir í fjölskyldunni í skóinn frá honum.

Heiðrún Kristmundsdóttir

Jólin koma þegar…. Mamma“ með Björgvin Halldórs kemur á fóninn, helst þegar ég stend inni í eldhúsi og niðurtalning til jóla er hafin í klukkustundum. Það er svo kannski Kertasníkir sem kemur með loka jólahnykkinn á mínu heimili því hann gefur öllum í skóinn! Sniðugur snáði sá og vel upp alinn.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Frá því að ég flutti til Bandaríkjanna 17 ára hef ég aldrei haldið jólin á sama stað tvö ár í röð, sjaldan í sama landi eða með sama fólkinu. En í ár erum við í fyrsta skipti að halda jólin á sama stað, tvö ár í röð og það heima á Selfossi.
Það eru samt töfrar að upplifa jólin með krökkunum, verandi gríðarlega mikið jólabarn sjálf. Jólaminningar með þeim fara að standa upp úr með hverju árinu.

Ég verð samt að fá að segja frá einni minningu frá því ég var yngri. Þá setti Gulli bróðir, sem var þá nemi í stjórnmálafræði, þá reglu að þeir sem ræddu pólitík yfir hamborgarhryggnum ættu að setja upp trúðsnef. Afi minn heitinn, og nafni hans, hafði mikið gaman af því að æsa og stríða. Það leið því ekki á löngu þar til allir við borðið voru komnir með rautt trúðsnef á aðfangadagskvöld – meira að segja langamma Jóhanna!

Hvað er á jólaborðinu? Í forrétt er jólalax sem við fáum heimsendan frá tengdaforeldrum mínum á aðfangadag. Eða, er það ekki annars elsku Steinar minn?
Svo er það gamli góði hamborgarhryggurinn í aðalrétt, sykurbrúnaðar kartöflur, tartalettur, kokteilávaxtasalat, ananas- og gulu baunasalat og sósan sem veldur kvíðakasti ár hvert.
Í fyrri eftirrétt er heimatilbúinn Toblerone-ís með heitri sósu og svo er það kaka í seinni eftirrétt.

Uppáhalds jólamynd? Má svara hérna NBA Christmas Day leikirnir? Annars er líklegast er Home Alone að eignast þennan titil þar sem krakkarnir eru að verða nógu gömul til að hafa gaman að henni. Sérstaka tilnefningu fá samt Lord of the Rings myndirnar.

Uppáhalds jólasveinninn? Stúfur, af því hann er þriðji í röðinni og minnstur af sínum systkinum – og pottþétt í mestu uppáhaldi hjá foreldrum sínum – alveg eins og ég!

Davíð Lúther Sigurðarson

Jólin koma þegar…. Linda mín byrjar að elda rauðkálið.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Ætli það séu ekki þegar börnin okkar höfðu vit á að opna jólapakkana og svipurinn þeirra bræddi mann.

Hvað er á jólaborðinu? Það er ekki ákveðið, við verðum erlendis og það kemur bara í ljós hvað við finnum í næstu verslun.

Uppáhalds jólamynd? Home Alone er alltaf skemmtileg, bæði þegar ég var sjálfur krakki og í dag að horfa á með börnunum mínum. 

Uppáhalds jólasveinninn? Stúfur hefur alltaf verið í uppáhaldi þar sem við erum ekki ósvipaðir í stærð.

Ösp Viðarsdóttir

Jólin koma þegar… 18. desember er liðinn. Ég á afmæli þá og finnst ekkert gaman að íhuga jólin mikið fyrr þótt ég neyðist til þess barnanna vegna. Svo er ómissandi að fara í Bolholtsskóg á Rangárvöllum að höggva jólatré en það gerum við á hverju ári. Skógræktarfélag Rangæinga verður með árlega jólatrjáasölu þar 14. desember fyrir áhugasama.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Rólegheit æskujólanna, ekkert jólastress eða læti. Við mæðgur að sauma dúk undir jólatréð og þegar pabbi dró alltaf fram vídjóvélina um hver jól til að festa okkur á filmu.

Hvað er á jólaborðinu? Undanfarin ár höfum við verið með dádýrslund, hasselback-kartöflur og heimsins bestu sósu sem maðurinn minn gerir á aðfangadag. Á jóladag er svo alvöru birkireykt hangilæri með öllu tilheyrandi hjá mömmu og pabba. Í ár verðum við erlendis og alveg óljóst hvað verður í jólamatinn.

Uppáhalds jólamynd? Sko, kannski ekki hefðbundin jólamynd en mér finnst Lord of the Rings-myndirnar vera jólamyndir því þær voru alltaf frumsýndar um jólin. Þær eru í uppáhaldi.

Uppáhalds jólasveinninn? Hurðaskellir, því hann kemur á afmælinu mínu og er algjör prakkari.

Rakel Magnúsdóttir

Jólin koma þegar…. ég horfi stolt á 9. og 10. bekkinga í Grunnskólanum í Hveragerði sýna jóladansana sína á Litlu jólum GÍH, eftir strangar dansæfingar í desember. Þetta er eintóm gleði og gæsahúð.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Ein af uppáhalds jólaminningingunum mínum er þegar öll MAGG fjölskyldan var saman á aðfangadegi jóla og það myndaðist svona Eat, pray, love stemning. Við vorum í Kópavogi hjá Stebba bróður og Orginallinn (Maggi Stef) ætlaði að djúpsteikja heilan kalkún hana handa öllu liðinu – alls 17 mathákar.

Þegar klukkan var að nálgast 17:00 og yngri kynslóðin orðin óróleg var ákveðið að skipta liði. Þeir sem vildu fara með ungana í kirkju áttu að gera það – hin sem eftir voru ætluðu að klára að græja matinn. Ég fór í kirkju, það var notalegt. Þegar við komum aftur heim – sjúklega spennt að borða jólamatinn sé ég Einsa minn með þvílíkar aðfarir yfir greyið kalkúninum – en það kom sum sé í ljós þegar eldamennskan var á suðupunktinum að djúpsteikingarpotturinn var bilaður. Nú voru góð ráð dýr og það eina í stöðunni að búta fuglinn niður og henda honum inn í ofn.

Kalkúnninn var borinn á borð upp úr kl. 23:00 – en þá vorum við öll frekar södd og sæl eftir að hafa borðað forrétti og meðlæti og fullt af eftirréttum. Þetta var yndislegt og mjög eftirminnilegt kvöld.

Hvað er á jólaborðinu? Ég ólst upp við að borða hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld og kynnti þann jólarétt fyrir stelpunum mínum – sem elska reykt svínakjöt. Í dag get ég ekki hugsað mér að borða svona saltkjöt þannig að við erum alltaf með því eða þríréttað svo allir fái það sem þeim finnst gott. Þá vel ég annaðhvort heimagerða innbakaða hnetusteik eða hægeldaða nautalund með heimsins besta perusalati sem Guðrún Hafsteins gaf mér uppskriftina að.

Uppáhalds jólamynd? Uppáhalds jólamyndin mín er án efa Love Actually, hún er bæði falleg, fyndin og ferlega rómantísk.

Uppáhalds jólamynd? Uppáhalds jólasveinninn minn er klárlega pabbi minn, sem sinnti því hlutverki manna best öll mín uppvaxtarár. En ef ég þarf að kjósa um einn af bræðrunum 13 þá fær Kertasníkir mitt atkvæði því hann kemur alltaf með svo skemmtilegar gjafir í skóinn handa öllum heimilismeðlimunum.

Erla Þorsteinsdóttir

Jólin koma þegar…. við fjölskyldan setjumst við borðið okkar á Bala með jólasteikinni, og hlustum á meðan á gamlan jóladisk með Kór Langholtskirkju sem ég söng með hér á árum áður.

Hver er uppáhalds jólaminningin? Sem barn og unglingur er það allt sem viðkom kindunum heima, fara í messu á Land Rover í alls konar veðrum. En í seinni tíð stendur upp úr fyrstu og einu jólin okkar sem fjölskylda í Reykjavík. Þá fór ég og söng í jólamessu kl. 18.00 í Langholtskirkju, dreif mig svo heim að sjá um sósuna – og klúðraði henni algerlega, það er ennþá minnst á það hér á bæ og passað að ekki gleymist.

Hvað er á jólaborðinu? Hamborgarhryggur, brúnaðar kartöflur, mjög góð sósa og alls konar meðlæti.

Uppáhalds jólamynd? White Christmas með Bing Crosby og Danny Kaye. Falleg mynd með dans og söng, góðum boðskap.

Uppáhalds jólasveinninn? Kertasníkir, hann kom alltaf með langbestu sendinguna í skóinn til barnanna okkar. Hann var líka síðastur og jólin eiginlega komin þegar hann kom.

Gunnar Karl Gunnarsson

Jólin koma þegar… Finnst eitthvað hátíðlegt að vera að redda jólagjöfum alveg á síðustu stundu, ráfandi um Smáralind eða Kringluna eins leiðinlegt og það er þá er samt einhver stemning í því

Hver er uppáhalds jólaminningin? Þegar Kertasníkir gaf mér leikfangalest í skóinn. Það var frekar epic.

Hvað er á jólaborðinu? Ætli maður kíki ekki til mömmu og pabba, þar er vanalega hamborgarhryggur með brúnuðum kartöflum, waldorfsalati, grænum og gulum baunum og einhverri þrælgóðri sósu. Besta sem ég fæ!

Uppáhalds jólamynd? National Lampoon‘s Christmas Vacation er alltaf klassík.

Uppáhalds jólasveinninn? Kertasníkir er langbestur, hann gefur alltaf dýrustu gjafirnar!

 

Rakel Guðmundsdóttir

Jólin koma þegar… þú byrjar að hlusta á jólalög í laumi

Hver er uppáhalds jólaminningin? Þegar við fjölskyldan settumst niður eftir allt pakkaflóðið, með ananasfrómans í skál og lásum jólakortin. Því miður er sú hefð að hverfa þar sem færri senda skrifuð jólakort, en það var svona róleg, hlý og alvöru jólastund, þar sem maður stoppaði, hló og hugsaði til fólksins sem hafði tekið sér tíma til að senda kveðju.

Hvað er á jólaborðinu? Hamborgararhryggur frá mömmu og nýbökuð laufabrauð

Uppáhalds jólamynd? The Holiday, af því… Jude Law og Cameron Diaz. That’s it 🙂

Uppáhalds jólasveinninn? Stúfur, af því hann er lítill, sætur og gerir sitt besta – eins og ég 😉

 

Nýjar fréttir