„Það eru mennirnir sem eru gull þjóðanna.” Náttúruauðlindir eru mikilvægar hverju landi en þá þurfa að vera til menn eða konur sem eiga vilja og afl. Selfoss/Árborg hefur átt og á marga sem skara fram úr, af einum höfum við reist styttu og það er Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri, jarlinn í Sigtúnum eða konungurinn á Selfossi eins og Kristmann Guðmundsson skáld kallaði hann. Styttan reis fyrir frumkvæði Leós Árnasonar og þeirra Sigtúnsmanna, KÁ-manna ofl. Styttan er verðugur minnisvarði um frumherjann sem skóp Suðurland með Samvinnumönnum og tók þar við sem Guð almáttugur skilaði okkur landinu fagra. Eini heiðursborgarinn sem Selfoss hefur útnefnt sem heiðursborgara var séra Sigurður Pálsson. Flóamenn gerðu Siggu á Grund að sínum heiðursborgara þessa mögnuðu listakonu sem fer fremst segja fræðimenn mér í útskurðarlistinni í heiminum.
Hví skyldi samfélag eins og Árborg ekki heiðra sitt merkilegasta fólk? Kjartan Björnsson hefur sinnt menningunni vel hér í Árborg sitjandi í bæjarstjórninni. Hvernig væri nú að eignast eða velja á ný einhvern sem ber þá kórónu að heita heiðursborgari Árborgar? Sigfús Kristinsson uppfyllir öll skilyrði til að hljóta slíka útnefningu. Hann er í rauninni jafngamall byggðinni við Ölfusá og man Selfoss á langri ævi orðinn 93 ára gamall, ættaður frá Eyrarbakka.
Nú hefur þessi staðarsmiður Selfoss gefið út ævisögu sína sem hann tók að skrifa níræður að aldri. Þessi bók er jafnframt saga Selfoss. Hann hefur byggt sitt menningarhús, Fagrabæ sem heillar jafnt innlenda sem erlenda ferðamenn, þangað koma hópar og hitta öldunginn og margir segja „ja hérna þú lítur út eins og Albert Einstein.“ Og ekki þarf annað en að gúgla hinn magnaða vísindamann til að sjá skyldleikann í útlitinu. Oft kem ég með menn til Sigfúsar þar sem hann situr nú löngum á skrifstofu sinni er viðræðugóður og kann alla sögu Selfoss, og veltir fyrir sér sögunni og lífsgátunni. Þessari grein fylgir mynd af Sigfúsi sem heldur á styttu af Einstein sem honum var gefin og með honum er Kristinn Pétursson fyrrv. alþingismaður frá Bakkafirði. Kristinn orðaði það svo eftir að hafa setið á skrifstofu höfðingjans: „Sigfús er einn sérstæðasti og merkasti maður sem ég hef hitt, á lífsleiðinni. Ég fann kraftana í kringum hann og magnað andrúmsloft en mikla velvild til lands og þjóðar. Mér fannst að ég sæti hjá Einstein Selfoss.”
Sigfús Kristinsson er fremstur meðal jafningja til að bera þá heiðurskórónu að vera sæmdur því að bera nafnbótina „Heiðursborgari Árborgar.”


