Stóra verkefni vetrarins hjá Leikfélagi Selfoss heldur af stað í spennandi ævintýri um næstu helgi. Helgina 15.-16. nóvember verður fyrsti samlestur og leiksmiðja fyrir skilaboðaskjóðuna í Litla leikhúsinu við Sigtún. Á samlestrinum verður verkið lesið í gegn en auk þess verður lesturinn brotinn upp með léttum æfingum og sprelli. Æfingar á verkinu munu svo fara á fullt eftir áramót.
Leikstjóri sýningarinnar verður Gunnar Ingi Gunnsteinsson leikari og leikstjóri. Gunnar hefur tekið þátt í og leikstýrt fjölda sýninga, nú síðast Kardimommubænum hjá Leikfélagi Keflavíkur og Ávaxtakörfunni hjá Leikfélagi Hveragerðis. Höfundur Skilaboðaskjóðunnar er Þorvaldur Þorsteinsson og fjallar verkið um dverga sem búa í Ævintýraskógi og ýmsar aðrar ævintýrapersónur sem þurfa að berjast við ill öfl til verndar samfélagi sínu. Verkið er fullt af skemmtilegum og eftirminnilegum lögum og persónum, frábær skemmtun fyrir bæði börn og fullorðna.
Samlesturinn verður kl. 11:00-15:00 bæði laugardag og sunnudag, 15.-16. nóvember. Leikfélag Selfoss hvetur öll 15 ára og eldri sem eru áhugasöm á að vera með til að mæta. Einnig hvetjum við öll sem hafa áhuga á að starfa með okkur að sýningunni á öðrum póstum til að mæta, t.d. í tónlistarflutningi eða til að taka þátt í starfi á bak við tjöldin við búninga, ljós, hljóð, leikmynd, förðun, miðasölu eða markaðssetningu. Þetta er frábært tækifæri til að taka þátt í skapandi ferli og læra eitthvað nýtt. Hlökkum til að sjá ykkur.
Stjórn Leikfélags Selfoss

