-1.6 C
Selfoss

Nóg að gera hjá Betu Björgvins

Vinsælast

Selfyssingurinn Elísabet Björgvinsdóttir, eða Beta Björgvins eins og flestir þekkja hana, hefur verið önnum kafin upp á síðkastið. Beta hefur nýlega verið ráðin sem nýr skemmtanastjóri á Miðbar á Selfossi og auk þess er hún nýlærður þjálfari í Barre.

Dagskráin tók viðtal við Betu þar sem hún sagði frá starfi sínu bæði sem skemmtanastjóri á Miðbar og Barre þjálfari, auk þess deildi hún upplifun sinni sem keppandi úr Idolinu fyrir nokkrum árum.

Almennt mjög skemmtilegt starf

Starf Betu sem skemmtanastjóri er tiltölulega nýhafið. Í desember sl. hóf hún störf.
„Ég byrjaði bara núna í desember, þau höfðu samband við mig um að það vantaði skemmtanastjóra,“ segir hún.

Starfið er afar fjölbreytt að sögn Betu og gefur henni mikið frelsi á sjálfstæð vinnubrögð. „Þetta snýst mikið um skipulagningu viðburða og skemmtanahald. Ég er til dæmis að sjá um að bóka gigg fyrir viðburði.“
Hún tekur þó fram að hún sé ekki ein að skipuleggja viðburði og að vinnan sé mikið í samblandi við samstarfsfólk sitt.

Beta segir það greinilega hafa orðið breyting á viðburðahaldi staðarins. Landsleikirnir í handbolta hafa meðal annars verið afar vinsælir á Miðbar meðan á þeim stendur.
Aðspurð hvað henni finnist skemmtilegast við starfið svarar hún:
„Þetta er bara fyrir höfuð allt mjög skemmtilegt. Það er búið að bætast mjög mikið í viðburði upp á síðkastið. Það er búið að rífa staðinn aðeins upp sem er bara geggjað og mjög gaman.“

Í kvöld, föstudaginn 30. janúar, er Beta að sjá um viðburð á Miðbar þar sem Gummi Emil lætur sjá sig tryllir gesti.

Barre uppfyllir löngunina að hjálpa öðrum

Barre hefur notið gríðarlegra vinsælda hjá mjög mörgum upp á síðkastið. Samhliða skemmtanastjórastarfinu er Beta Barre-þjálfari hjá Gym800 og nýtur hún góðs af því. Hún er nýlega lærð og hóf störf í janúar.
„Það er mjög gaman, mjög vinsælt og mjög skemmtilegt.“

Barre er sambland af styrktaræfingum, pilates og jóga. Barre lýsir sér þannig að það eru hefðbundnar líkamsræktarhreyfingar með léttlóð og gerðar eru smáar hreyfingar í takt við tónlist, engin hopp eða hlaup. Í Barre er áhersla lögð á styrk, líkamsstöðu, jafnvægi og sjálfstraust.
„Þetta er í raun bara endurtekningar í takt við tónlist,“ segir Beta.

Beta segir starfið mjög gefandi og að áhugi hennar fyrir Barre liggi í að vilja efla konur í að finna sjálfsöryggi í líkamsrækt. Námskeiðið er því fyrir konur sem vilja æfa í öruggu og eflandi umhverfi.
„Það er svo stór partur af konum sem mæta í líkamsrækt og það fylgir þeim oft svo mikið óöryggi. Ég vil að konur geti mætt til mín og ekki verið óöruggar heldur finna frekar sjálfsöryggi.“ Hún segir Barre þjálfunin uppfylla þá löngun að vilja hjálpa fólki.

Mynd: Aðsend.

Í febrúar verður Beta með 4 vikna námskeið, Barre með Betu, alla þriðjudaga og fimmtudaga. Beta verður með þrjú námskeið, hefðbundið Barre, mömmu Barre og svo að lokum unglinga Barre. Hægt er að skrá sig á gym800.is og hvetur Beta alla þá sem hafa áhuga á að mæta.

Idol reynslan

Beta lýsir sér sjálfri sem stórum persónuleika. Hún hefur alltaf sótt í sviðsljósið því þar finnur hún adrenalínið. Margir kannast við Betu úr Idolinu en í lok árs 2023 og byrjun 2024 tók hún þátt enda mikil söngkona og með hörkurödd. Þar stóð Beta sig með prýði og komst í beina útsendingu í keppninni. Hún segir þá reynslu hafa verið afar skemmtilega að vissu leyti en að hún hafi haft mikil áhrif á hana.

Mynd: Aðsend.

„Maður kemur alveg brenndur út úr þessu, þetta tekur alveg á,“ segir hún. Hún lýsir óþarfa athugasemdum sem bárust til hennar á meðan á keppninni stóð og á meðan símakostningin réð ferðinni en ekki lengur dómararnir.
„Það voru svona ákveðnir hlutir sem fólk sagði sem var kannski alveg full óþarfi sem situr væntanlega í manni. Ég var 17-18 ára þá og ógeðslega leiðinlegt að fá svona komment á þeim tíma,“ bætir Beta við.

Þrátt fyrir erfiðu reynsluna sem fylgdi keppninni segir Beta sig alveg vera komin yfir tímana sem tóku á og hún er afar þakklát fyrir það sem hún lærði á þessu tímabili. Hún segir upplifunina hafa verið uppbyggjandi og skemmtilega á sinn hátt samhliða baráttunni.

Í dag er hún ekki jafn mikið í söngnum og áður fyrr. Beta er þó að reyna að koma sér á ról en segir að hún vilji samt á þessu augnabliki leggja meiri áherslu á bæði skemmtunarstjórnunina og að þjálfa Barre. Beta trúir þó að brátt muni hún ná að finna jafnvægi í öllum störfum sínum.
„Ég held samt að með öllu þessu sem ég er að gera núna komi söngurinn með hinum störfunum á endanum,“ segir Beta að lokum.

SEG

Nýjar fréttir