-6.1 C
Selfoss

Margt smátt gerir eitt stórt

Vinsælast

Emilía Hugrún Lárusdóttir, 21 árs frá Þorlákshöfn, er á harðri uppleið í tónlistarbransanum. Hún hefur síðastliðið ár verið að stíga sín fyrstu skref bæði sem lagahöfundur og söngkona og gaf út nýtt lag í síðustu viku. Hún hóf nám við Listaháskóla Íslands í ágúst og hefur námið gegnið með prýði.

Beyoncé stærsta fyrirmyndin

Áhugi Emilíu á söng uppgötvaðist á ungum aldri þegar hún fór í sönglist í Borgarleikhúsinu. Upp frá því segir Emilía alltaf hafa verið að syngja í leyni og vissu fáir af hæfileika hennar. Það var ekki fyrr en á 16 ára aldri sem Emilía ákvað að stíga á svið í fyrsta skipti og keppa í söngkeppni Samfés þar sem hún stóð sig feikivel og lenti í þriðja sæti.

Emilía segir að Beyoncé vera helsta ástæðan fyrir því að hún ákvað að spreyta sig í tónlistinni. „Ég horfði á Homecoming með Byeoncé og ég varð alveg heilluð og ákvað að ég varð að taka þátt í Samfés. Hún er klárlega mikill innblástur hjá mér,“ segir Emilía.

Eftir velgengnina í Samfés keppir Emilía í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2022 fyrir hönd FSu þar sem Emilía sigrar keppnina. Emilía segir að það hafi komið feril hennar af stað.

Skrefin inn í lagasmíði

Skrefið inn í lagasmíðar og útgáfu á sinni eigin tónlist kom í byrjun 2024 með símtali frá vini hennar Steina, sem hún kynnist í Söngkeppni framhaldsskólanna. Upp hófst ákveðið samstarf á milli þeirra og hafa þau bæði verið að leika sér á að semja og gefa út sína eigin tónlist. Fyrsta lagið þeirra kom út í mars á þessu ári. Síðan þá hefur ferill þeirra beggja tekið kipp, ekki síst þökk sé forritinu Tiktok.

„Tiktok er svo geggjað forrit til þess að auglýsa sig. Það nær til svo ótrúlega margra,“ segir Emilía. Hún vill meina að Tiktok-myndböndin hennar hafi verið tólið sem hjálpaði henni best að koma sér af stað.

Kjölfar þess gefur hún út lagið Vitamin ásamt tónlistarmanninum ISSA, sem er stærsta verkefni Emilíu hingað til. Emilía segir það hafa verið mjög skemmtilegt verkefni.

DREYMA kemur út

Í síðustu viku gáfu þau Emilía og Steini, eða Fosteii eins og hann kallar sig, út lagið DREYMA. Það er í RnB- og sálarstíl og segir Emilía að það sé helsti stíllinn sem bæði hún og Steini vinna með. Steini var jafnframt í upptökustjórn á laginu. Hugmynd lagsins var upprunalega ætluð sem lítil Tiktok-klippa fyrir aðganginn þeirra en þróaðist seinna meir í þetta lag.

Emilía Hugrún og Forsteii. Mynd: Aðsend.

Innblásturinn að laginu kom frá bókinni Let them eftir Mel Robbins, sem Emilía las, og fjallar um að sleppa tökum á því sem maður getur ekki stjórnað og að leyfa hlutunum að gerast. „Ef það er einhver manneskja sem vill fara úr lífinu þínu, leyfðu þeim bara að fara. Það er það sem lagið er um,“ segir Emilía. Hún segir DREYMA vera hennar uppáhaldslag sem hún hefur gefið út hingað til og hún er virkilega stolt af þessu verki.

Sköpunarferlið

Innblástur að lögum segir Emilía geta komið til hennar hvar og hvenær sem er. Hún er dugleg að skrifa þessar hugmyndir niður hjá sér sem annað hvort þróast í eitthvað eða ekki. „Stundum er ég bara að labba um lífið og það kemur eitthvað til mín, eitthvað sem ég sé eða heyri, ég fæ innblástur alls staðar að! Það er mjög mismunandi,“ segir hún.

Emilía segir að erfiðasta við að semja er þegar hana skortir innblástur eða hvatningu. „Þá er erfitt að gera eitthvað gott,“ segir Emilía. Henni finnst þó mikilvægt að hætta ekki og gefast upp og að lélegir textar geti alltaf þróast í eitthvað gott. „Mér til dæmis fannst DREYMA alveg hræðileg hugmynd fyrst og svo prófuðum við að halda áfram og núna er þetta uppáhaldslagið mitt sem ég hef gefið út,“ segir Emilía

Þó að Emilía finni ástríðu bæði í lagasmíði og söng segist hún vera fyrst og fremst söngkona og að söngurinn sé upphafið á feril hennar. Emilía lýsir því ótrúlegri upplifun að koma fram fyrir framan fólk með söng. „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því.“ Emilía vill að hún skili einhverju með söngnum þegar hún kemur fram og hún vill leggja áherslu á að það skili sér líka með söngnum sjálfum en ekki einungis orðunum í laginu.

DREYMA. Mynd: Aðsend.

Framtíðin er björt

Það er óhætt að segja að Emilía er einungis rétt að byrja. Emilía er á fullu að semja fleiri lög og sem næstkomandi verkefni stefnir hún á að gefa út smáskífu.

Emilía segir að það sem hún vilji helst fá út úr þessu ferli er að safna til sín góðu fólki sem líkar við tónlistina hennar og finnur eitthvað þegar það hlustar á hana. Hún hvetur alla með slíkan draum og hennar að halda áfram og gera hlutina. „Margt smátt gerir eitt stórt! Það er enginn að fara að gera hlutina fyrir þig svo ekki gefast upp!“

SEG

Hlusta á lag:
DREYMA
Sjá grein:
Emilía gefur út DREYMA

Nýjar fréttir