Á Laugalandi býr Bæring Jón Breiðfjörð Guðmundsson, kennari, tálguleiðbeinandi og þriggja barna faðir, sem hefur á undanförnum árum vakið sérstaka athygli fyrir bæði óvenjulegar og skemmtilegar tálgaðar jólaafurðir. Bæring kennir við Laugalandsskóla, leiðir námskeið í tálgun og hefur smám saman byggt upp sitt eigið lítið heimaverkstæði þar sem húmor, handverk og saga mætast. Við settumst niður með honum og spurðum út í upprunann, sköpunargleðina og ferlið á bakvið þennan litríka heim tálgsins.
Byrjaði eftir heimsókn frá ömmu sinni og afa
„Ætli það hafi ekki verið sumarið 2018. Björgvin afi minn og Sigrún amma voru í heimsókn í sveitinni og höfðu með sér hnífa og linditrésbúta. Þau höfðu þá verið að tálga í einhvern tíma og leyfðu mér að grípa aðeins í hnífinn og kenndu mér til verka. Þá var ekki aftur snúið! Vikuna eftir var ég búin að fjárfesta í eigin tálguhníf og sá hefur fengið að vinna fyrir kaupinu síðan,” segir Bæring.
Það sem hefur heillað Bæring hvað mest við að tálga er hvað hún veitir honum mikla núvitund og ró. „Það er sérlega ánægjulegt að skapa eitthvað frá grunni og fylgjast með timbrinu umbreytast í eitthvað fallegt í höndunum á manni,“ bætir hann við.

Loddaralíðan á háu stigi
Fyrir nokkrum árum bauðst honum að vera með sölubás á aðventuhátíð í sveitinni. Fyrir þann tíma hafði hann ekki hvarflað að sér að selja það sem hann bjó til. „Ég var frekar smeykur um viðbrögðin og var ekki viss hvort nokkur hefði minnsta áhuga á að kaupa það sem ég var að skapa. Það læddist að mér loddaralíðan á háu stigi. Til að auka sölulíkurnar ákvað ég að vera með einhverjar jólatengdar vörur, í bland við fuglana og hvalina sem ég tálgaði, helst eitthvað nægilega krassandi sem gripið gæti athygli fólks þegar það gengi fram hjá básnum mínum,“ segir Bæring.

Hugmyndin að jólakúlunum eða „christmas balls“ varð til þarna rétt fyrir aðventuhátíðina og tókst honum að tálga út þó nokkurn fjölda. „Sumir urðu hálfvandræðalegir þegar þeir byrjuðu að skoða skrautið aðeins nánar og áttuðu sig á að þeir væru að handleika loðna jólasveinapunga. En svo fór að þeir ruku hreinlega út,“ segir Bæring hlæjandi. Í kjölfarið fengu pungarnir svo fleiri tegundir af höfuðfötum; pípuhatta, húfur, hestahjálma, kúrekahatta o.s.frv. Allir með sinn eigin karakter.“

Trump og seinni heimstyrjaldarpungar vöktu athygli
Á aðventuhátíðinni í ár kynnti Bæring fólk fyrir nýjustu útgáfunni af „jólakúlunum“ sínum. „Í vetur hef ég verið að fræða nemendur um styraldar- og kreppuárin á fyrri hluta 20. aldar. Því hafa helstu leikendur í seinni heimstyrjöldinni verið mér hugleiknir. Áður en ég vissi af voru þeir Stalín, Hitler og Churchill mættir ljóslifandi fyrir framan mig í formi jólapunga. Svo hefur Donald nokkur Trump verið ansi fyrirferðarmikill í heimsmálunum í ár – og verandi pungurinn sem hann er lá beinast við að útbúa Donald Trump jólapunga einnig“.
Til að það gangi upp að beintengja á þennan hátt jólapunga við ákveðna einstaklinga úr heimssögunni þurfa viðkomandi aðilar að vera með ansi einkennandi höfuðföt/hár, skegg eða fylgihluti. Þannig ná t.a.m. ljósu lokkar Trumps og síða rauða bindið að ramma vel inn manninn í pungnum. „Svo skemmir ekki fyrir að klessa vel af appelsínugulum framan á, svona til að kóróna sköpunarverkið,“ segir Bæring glettinn.




Hefur kennt börnum frá 5 ára aldri að tálga
Samkvæmt Bæringi geta allir lært að tálga. Hann hefur kennt börnum allt frá 5 ára aldri réttu tálgubrögðin og segir hann það alltaf jafn vinsælt. Það mikilvægasta sem börnin læri við tálgun er að bera virðingu fyrir hnífnum, sýna varúð og beita réttri tækni. Þannig má forðast óþarfa slys. „Hnífarnir eru vissulega beittir og ef einbeitingin er ekki á réttum stað þá er auðvelt að slasa sig. Öryggið er því númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Bæring.
Bæring segir engan mun vera á því að kenna börnum og fullorðnum að tálga.„Allir eru byrjendur þegar þeir prófa eitthvað í fyrsta skiptið. Stundum er jafnvel auðveldara að kenna ungum krökkum sem aldrei hafa tálgað áður. Þau hafa ekki komið sér upp slæmum ósiðum og eiga því jafnvel auðveldara með að temja sér rétta tálgutækni. Þá kemur það raunar sjaldnar fyrir að yngri krakkarnir skeri sig óvart í puttana enda fara þau sér hægar og beita ekki eins miklu afli eins og þeir sem eldri eru.“
Fyrir þá sem vilja byrja að tálga er fyrsta skrefið að kaupa góðan hníf. Bæring mælir með að fara á námskeið og læra réttu tæknina, bæði við tálgunina sjálfa og svo við umhyrðu á hnífnum. „Að endingu er það einfaldlega æfingin sem skapar meistarann. Ef þú ert að leita þér að skemmtilegu áhugamáli, jafnvel sem fjölskyldan getur átt saman, þá mæli ég sterklega með tálgun,“ segir Bæring í lokin.
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verk Bærings nánar er hægt heimasækja Instagram síðuna hans @breidfjord_talgumunir. Bæring á oftast til eitthvað á lager hjá sér en einnig er hægt að senda á hann sérpantanir. „Þess á milli er þetta aðallega skemmtilegt áhugamál.“
BRV

