Opinn kynningarfundur Eyjaganga ehf. var haldinn í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli 20. janúar sl. og var fundurinn ágætlega sóttur, en rúmlega 30 manns mættu. Sambærilegur fundur fór fram í Vestmannaeyjum 15. janúar en hann sóttu á fimmta hundrað manns.
Á fundinum kynnti stjórn félagsins stöðu verkefnisins, fyrirhugaðar jarðrannsóknir, næstu skref og tímalína kynnt. Rannsóknarboranir hefjast í Vestmannaeyjum í mars komandi og lofi þær góðu verður haldið áfram í vor í Landeyjum. Gert er ráð fyrir að göngin verði um átján kílómetra löng, taki land við Kross í Landeyjum og nái niður á 220 metra dýpi. Á Heimaey er áætlað að göngin komi upp undir Klifið og tengist gatnakerfi Vestmannaeyjabæjar rétt sunnan við Friðarhöfn. Fyrstu áfangar rannsóknanna felast í borun kjarnahola, annars vegar í Vestmannaeyjum og hins vegar í Landeyjum. Að þeim loknum taka við frekari rannsóknir og greiningar áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið.
Fram kom í kynningu stjórnarmanna að ljóst væri að framkvæmd af þessari stærðargráðu yrði kostnaðarsöm. Þrátt fyrir það telja þeir að arðsemi verkefnisins geti orðið ágæt til lengri tíma litið. Einnig kom fram að fjármögnun verkefnisins hafi gengið vel og að góður meðbyr hafi verið með verkefninu frá upphafi.
Árni Sigfússon fundarstjóri og stjórnarformaður Eyjaganga bauð fundargesti velkomna, en nú fengum við að hlusta á ræðu Antons Kára Halldórssonar, sveitarstjóra í Rangárþingi Eystra, sem ekki komst á fundinn í eyjum. Anton Kári benti á marga kosti jarðgangna milli lands og eyja, sameiginlega þætti í báðar áttir sem nýttist ekki bara Rangæingum heldur íbúum allt austur í Vík. Þar mætti nefna aðgang að sjúkrahúsi Vestmannaeyja og framhaldsskólanum, en auk þess aðgang að höfn sem með tíð og tíma myndi nýtast framsýnum sveitungum sínum.
Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri sambands sunnlenskra sveitarfélaga og stjórnarmaður, mætti en hún eins og margir komst ekki á fundinn í eyjum. Haraldur Pálsson kynnti verkefnið ýtarlega, þar á meðal tímalínu þess sem vakti athygli fundarmanna.
Skemmtilegt var að heyra áhuga fundarmanna í almennum fyrirspurnum og voru þær margar hverjar meira miðaðar við tækifæri heimamanna eins og vænta mátti, en þar mátti heyra mikinn áhuga fólks á verkefninu.
Í stjórn Eyjaganga ehf. sitja Árni Sigfússon sem er formaður stjórnar, Gylfi Sigfússon, Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, Ívar Atlason, umdæmisstjóri vatnasviðs HS veitna í Eyjum, og Haraldur Pálsson sem er framkvæmdastjóri félagsins.


