-4.7 C
Selfoss

Indæl ævisaga

Vinsælast

Þau hjónin Ísólfur Gylfi Pálmason og Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir sem búa í Rangárþingi eystra og eru bæði komin á eftirlaun hafa gefið út plötu með fimm lögum sem komin eru á Spotify. Platan heitir Indæl ævisaga og er safn laga sem Ísólfur hefur samið í gegnum tíðina. Platan samanstendur af lögum í hinum ýmsu ,,stílum” allt frá sveitatónlist til trúarlegrar tónlistar. Ísólfur segir að þetta sé gamall draumur hjá sér. Hann hefur fengist við tónlist frá unga aldri og spilaði á árum áður í nokkrum hljómsveitum. Þegar þau hjónin voru bæði komin á eftirlaun fóru þau að hugsa um það sem aldrei komst í verk á langri starfsævi og eitt af því var að koma þessari tónlist í varanlegt form. Ísólfur fékk til liðs við sig tónlistarmanninn Sigurgeir Sigmundsson sem útsetti lögin og hann hóaði í nokkra valinkunna tónlistarmenn og var platan tekin upp í stúdíó Paradís undir styrkri stjórn Jóhanns Ásmundssonar. Steinunn syngur þrjú lög á plötunni, eitt lag, Sveitasömbu syngja þau saman og Ísólfur syngur sveitalagið Indæl ævisaga sjálfur. Þeir sem spila með þeim á plötunni eru auk ofantaldra; Pálmi Sigurhjartarson, Hjörleifur Valsson og Sigfús Óttarsson. Um bakraddir sjá þær Elfa Margrét Ingvadóttir og Hjördís Tinna Pálmadóttir sem báðar eiga ættir að rekja til Hvolsvallar.

Þau hjónin segja að það hafi vissulega þurft kjark til að fara í þessa vegferð en þegar upp sé staðið hafi þetta verið hið skemmtilegasta verkefni. Það hafi hjálpað mikið til hversu indælir og hvetjandi Sigurgeir og þeir félagar hafi verið. Þau vilja meðal annars með þessu verkefni hvetja fólk á þriðja æviskeiðinu til að láta drauma sína rætast, hverjir svo sem þeir kunna að vera. Það sé bæði hollt fyrir líkama og sál. Plötuna í heild sinni má nálgast á Spotify undir heitinu Indæl ævisaga.

Nýjar fréttir