Sigurður Steinar Valdimarsson, alltaf kallaður Steinar flutti á Selfoss í fyrra frá Kópavogi en kærasta hans, Karólína Ívarsdóttir er Selfyssingur og öll hennar fjölskylda býr á svæðinu. Steinar er nýr þjónustustjóri VÍS á Suðurlandi.
„Það er virkilega gaman að vera kominn á Selfoss og ég er fullur tilhlökkunar að kynnast núverandi og nýjum viðskiptavinum VÍS enn betur. Ég hef líka fundið hversu samheldið samfélagið og það er ánægjulegt að vera partur af þessu frábæra samfélagi.“
Ljóst er að Suðurlandið er mjög stórt og spennandi svæði með öflugt og vaxandi atvinnulíf í fjölbreyttu samfélagi. Það skiptir Steinar máli að þjónustan endurspegli þarfir fólks hér. Markmiðið er að styðja við þennan vöxt og að viðskiptavinir finni að þeir fái einlæga, faglega og aðgengilega þjónustu þegar þeir þurfa mest á henni að halda. Hann hefur unnið í tryggingageiranum í tæp fimm ár en það má segja að hann brenni fyrir góðri þjónustu. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þjónustu og mér finnst gaman að leysa mál og hjálpa fólki. Svo fannst mér þetta passa mjög vel við styrkleika mína og það sem ég vil vera að gera til lengri tíma.“
Frítíma sinn nýtir Steinar í útivist og hreyfingu en þar ber hæst fjallganga, badminton, golf, skíði og crossfit enda er hann í hörkuformi. Auk þess hefur hann áhuga á ljósmyndun og allri tækni.
„Þó ég sé alinn upp höfuðborgarsvæðinu þá finnst mér gott að vera í sveitinni, en tengdapabbi minn og fjölskylda búa í Bláskógabyggð og það er alltaf gott að koma þangað og ég tala nú ekki um að fara í réttir á haustin, það er alveg toppurinn. Svo er ég búinn að sannfæra pabba að skrá sig í Golfklúbbinn á Selfossi með mér.“

Fimmtudaginn 5. febrúar milli kl. 16.30-17.30 býður Vís Selfyssingum og sveitungum á svæðinu í léttar veitingar á þjónustuskrifstofuna okkar á Eyravegi 37.


