3.5 C
Selfoss

271 HSK met í frjálsíþróttum sett á síðasta ári 

Vinsælast

Líkt og undanfarin ár voru metaskrár HSK í frjálsíþróttum uppfærðar í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss.

271 HSK met voru sett á síðasta ári, 107 met voru sett innanhúss og 164 utanhúss. Metin hafa líklega aldrei verið fleiri á einu almanaksári, en til samanburðar voru 220 HSK met sett árið 2024 og 157 árið 2023.

Keppendur 11 – 22 ára settu 104 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu fjögur met, keppendur í flokkum 30 ára og eldri settu 150 met og keppendur í fötlunarflokkum settu 13 met. 57 þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.

Anna Metta Óskarsdóttir, keppandi Selfoss í 15 ára flokki, setti flest met í yngri aldursflokkum og upp í fullorðinsflokk, en hún setti 32 HSK met á árinu í fjórum flokkum og voru fjögur þeirra jafnframt Íslandsmet, þrjú í þrístökki og eitt í fimmtarþraut. HSK metin sem hún setti voru auk þess í langstökki, stangarstökki, 100 m hlaupi, 4×200 m boðhlaupi og 5 mílna Bláskógaskokki.

Kristján Kári Ólafsson keppandi Selfoss í 16-17 ára flokki setti samtals 27 HSK met í þremur aldursflokkum. Flest met hans voru í sleggjukasti, en einnig í lóðkasti og kastþraut. Næst kom svo Andri Már Óskarsson, 12 ára keppandi úr Umf. Selfoss og bróðir Önnu Mettu. Hann setti samtals 12 HSK met í sjö aldursflokkum í 1.000 m hlaupi, 2.000 m hlaupi, 5 km götuhlaupi og 10 mílna Bláskógaskokki.

Í aldursflokkum 30 ára og eldri setti Páll Jökull Pétursson keppandi Selfoss samtals 54 HSK met í flokki 65-69 ára í fjölmörgum greinum bæði innan- og utanhúss og tvö þeirra eru einnig landsmet. Árný Heiðarsdóttir keppandi Selfoss setti 23 HSK met á árinu og öll þau met voru jafnframt landsmet. Fyrri hluta árs keppti hún í flokki 65 – 69 ára, en hún varð sjötug í apríl og keppti í sumar í flokki 70-74 ára.

Og feðgar komast á listann yfir þá sem settu flest met í fyrra, en Ólafur Guðmundsson Selfossi og faðir Kristjáns Kára setti 22 HSK met á árinu í flokki 55-59 ára.

Í flokkum fatlaðra setti Sigurjón Ægir Ólafsson úr Suðra 11 HSK met og öll þeirra voru einnig landsmet. Hrólfur Geir Björgvinsson einnig úr Suðra setti tvö HSK met.

HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK, www.hsk.is.

Nýjar fréttir