1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Fyrirlestur að Kvoslæk um Tómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldið 1918

Fyrirlestur að Kvoslæk um Tómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldið 1918

0
Fyrirlestur að Kvoslæk um Tómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldið 1918
Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur.

Fyrirlestraröðinni „Fullveldið og hlíðin fríða“ að Kvoslæk í Fljótshlíð lýkur laugardaginn 8. september nk. klukkan 15:00 með fyrirlestri Gunnars Þórs Bjarnasonar sagnfræðings um Tómas Sæmundsson, sjálfstæðisbaráttuna og fullveldið 1918.

Fjölnismaðurinn sr. Tómas Sæmundsson (1807–1841) fór í menningarferð um Evrópu brennandi í andanum „að koma í föðurlandi mínu nokkru því til vegar sem ég hafði séð í hinum siðaðri löndum og ég þóttist sannfærður um að líka gæti þrifist á Íslandi,“ sagði hann í Ferðabók sinni. Tómas var eldheitur ættjarðarvinur og lék stórt hlutverk í þjóðernisvakningunni sem varð meðal íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn á fjórða og fimmta áratug 19. aldar. Í erindinu fjallar Gunnar Þór um stjórnmálahugmyndir Tómasar, upphaf sjálfstæðisbaráttunnar og þróun hennar þar til Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Sjálfstæðishugmyndir Íslendinga breyttust í tímans rás og spurt verður hvenær fullveldi komst á dagskrá í íslenskri stjórnmálaumræðu. Hvernig hefði Tómasi Sæmundssyni verið innanbrjósts á Stjórnarráðstúninu við Lækjargötu í Reykjavík á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 þegar ríkisfáni Íslands var dreginn að húni?

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar um sjálfstæðisbaráttuna í upphafi 20. aldar og íslenskt samfélag og stöðu Íslands í fyrri heimsstyrjöldinni 1914–1918.

Fullveldissjóður og Uppbyggingarsjóður SASS styrkja fyrirlestraröðina.