11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Vetrarglæður – Hagyrðingakveld í Hveragerði

Vetrarglæður – Hagyrðingakveld í Hveragerði

0
Vetrarglæður – Hagyrðingakveld í Hveragerði

Ljóðasetur Hveragerðis heldur hagyrðingakveld miðvikudaginn 5. september nk. kl. 20:00 í Skyrgerðinni (gamla hótelið í bænum). Þetta er í þriðja sinn sem Ljóðasetur Hveragerðis stendur fyrir hagyrðingakveldi.

Sex bráðsmellnir hagyrðingar munu kasta á milli sín vísum, ferskeyttum og yrkja um hin ýmsu mál, sem efst eru á baugi í samfélaginu ásamt ýmsu öðru, svo sem að yrkja vísur um stuttar gamansögur sem sagðar verða. Og allt þetta verður gert á gamansömum og fyndnum forsendum.

Hagyrðingarnir sem fram koma eru sr. Hjálmar Jónsson, fyrrv. dómkirkjuprestur, Sigurjón Jónsson kenndur við Skollagróf, Sigrún Haraldsdóttir, Jón Ingvar Jónsson og svo Hvergerðingarnir Kristján Runólfsson og Hjörtur Benediktsson.

Ljóðasetur Hveragerðis er nú á sínu þriðja ári og markmið þess er að stuðla að aukinni ljóðlist, iðkun hennar og auknum áhuga fyrir henni í Hveragerði.

Forsala aðgöngumiða er í Shellskálanum og bókasafni Hveragerðis í Sunnumörk. Miðar verða svo seldir við innganginn meðan húsrúm leyfir. Takmarkað miðaframboð er svo vissara er að tryggja sér miða í tíma. Miðaverð er 2.000 kr. (athugið ekki posi). Einnig er hægt að forpanta miða á netfanginu: sblond@hveragerdi.is. Vinsamlegast skráið nafn og símanúmer. Hagyrðingakveldið er styrktarverkefni og verður styrþeginn tilnefndur þessa kveldstund.