2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Nýtt tímabil hafið í sögu stéttarfélaga á Suðurlandi

Nýtt tímabil hafið í sögu stéttarfélaga á Suðurlandi

0
Nýtt tímabil hafið í sögu stéttarfélaga á Suðurlandi
Gils Einarsson starfsmaður Suðurlandsdeildar VR.

Eins og flestum er kunnugt hafa Verslunarmannafélag Suðurlands og VR sameinast. Allir fullgildir félagsmenn í VMS urðu hinn 1. febrúar sl. fullgildir félagar í VR, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Til að loka þessu ferli þarf samþykkt aðalfundar VR sem haldinn verður í marsmánuði næstkomandi.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að svona stórt og öflugt félag sem við erum nú í, á auðveldara með að halda utan um félagsmenn sína ef veikindi eða slys ber að höndum svo ekki sé talað um það sterka bakland sem við höfum í sérfræðingum okkar á kjaramálasviðinu, en samningar og kjaramál eru þau atriði sem stéttarfélögum ber fyrst og fremst að standa vörð um.

Í Dagskránni í vikunni er auglýsing um orlofshúsin okkar í sumar. Ákveðið var að þeir sem voru félagsmenn í VMS gengju fyrir með úthlutun húsanna í Rangárseli í Reykjaskógi og Flúðaseli á Flúðum. Eftir að umsóknarfresti líkur þann 30. febrúar nk. og úthlutun hefur farið fram munu bústaðirnir fara inn í orlofskerfi VR og verður þeim þá úthlutað eftir þeim reglum sem þar um gilda. Upplýsingar um orlofshúsin má finna á heimasíðu VR.

Í frétt frá VR í síðustu viku segir. „Nýlega hófst stórátak í fjölgun orlofshúsa VR með kaupum á þremur glæsilegum íbúðum í miðbæ Akureyrar. Þessar íbúðir, sem eru á góðum stað við Skipagötu, eru nýlega uppgerðar og verða góð viðbót við þann orlofskost sem VR-félögum býðst nú á Akureyri. Fljótlega verður tilkynnt hvenær þær koma til útleigu en það verður innan skamms. Stjórn VR hefur ákveðið að veita 500 milljónum króna í þetta átak og kaupa allt að 20 ný hús og íbúðir. Á síðasta fundi stjórnar voru samþykkt kaup á 8 íbúðum og orlofshúsum en auk íbúðanna við Skipagötu, sem nú hafa verið afhentar, verða tvö orlofshús keypt í s.k. „Hálöndum“ við Hlíðarfjall á Akureyri og þrjú hús í Húsafelli“. Af þessu má sjá að félagið okkar er í stórsókn í orlofsmálum og verður spennandi að fylgjart með því uppbyggingarferli sem farið er af stað.

Kæru félagar í VR, nú er sextán ára starfi Verslunarmannafélags Suðurlands lokið, þetta var gott félag sem sinnti þörfum félagsmann sinna eftir bestu getu. Nú hefst nýtt tímabil í sögu stéttarfélaga á Suðurlandi, tímabil sem verður okkur öllum vonandi til farsældar og kemur til með að styrkja okkur öll í framtíðinni. Suðurlandsdeild VR með skrifstofu sína að Austurvegi 56 Selfossi mun veita Sunnlendingum og öðrum félagsmönnum félagsins okkar, alla þá þjónustu sem við getum veitt eins og áður. Verið velkomin.

Með bestu kveðjum,
Gils Einarsson starfsmaður suðurlandsdeildar VR.