3.1 C
Selfoss
Home Fréttir Sex sveitarfélög taka höndum saman um hreinsun og verkun seyru

Sex sveitarfélög taka höndum saman um hreinsun og verkun seyru

0
Sex sveitarfélög taka höndum saman um hreinsun og verkun seyru
Frá Flúðum. Mynd: Hrunamannahreppur.

Undanfarið hafa sveitarstjórnir Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar, Grímsnes- og Grafningshrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Flóahrepps og Ásahrepps tekið til umfjöllunar samstarfssamning um sameiginlegan rekstur tækja og svæðis vegna hreinsunar og verkunar seyru með aðstöðu að Flatholti 3 á Flúðum í Hrunamannahreppi.

Í samningnum kemur fram að samkomulag er milli sveitarfélaganna um að standa sameiginlega að hreinsun, verkun og förgun seyru. Markmiðið er að endurvinna seyru á þann hátt að hún teljist til hreinsaðar seyru skv. skilgreiningu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands.

Tilgangurinn er að standa sameiginlega að afsetningu seyrunnar á skilgreind svæði í samráði við landeigendur og Landgræðslu ríkisins á grundvelli samnings þar um. Einnig standa sameiginlega að hreinsun seyru á rotþróm og hreinsimannvirkjum sem heyra undir sveitarfélögin. Fjárfesting og rekstur á sameiginlegu svæði um verkun seyru verður að Flatholti 3 á Flúðum. Jafnframt tekur samkomulag til fjárfestingar og rekstur á sameiginlegum tækjabúnaði til meðhöndlunar og losunar á rotþróm í sveitarfélögunum, t.d. hreinsibifreiðum. Fjárfesting vegna stofnkostnaðar sameiginlegs seyrusvæðis og hreinsitækja er reiknuð hlutfallslega út frá fjölda byggðra lóða sem hafa hlotið lokaúttekt byggingarfulltrúa í sveitarfélögunum og eiga að vera tengd fráveitukerfi. Árlegum rekstrarkostnaði vegna reksturs á seyrusvæði er skipt milli sveitarfélaganna eftir magni hreinsaðrar seyru.

Samkvæmt samningnum sér Hrunamannahreppur um framkvæmd og umsjón verkefnisins og verður umsjónarfélag þess. Það heldur utan um fjárfestingu, rekstur og skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaganna og miðlar þeim með reglulegum hætti til sveitarfélaganna.