7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Setti fjögur Íslandsmet í desember

Setti fjögur Íslandsmet í desember

0
Setti fjögur Íslandsmet í desember
Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Umf. Heklu.

Í desember síðastliðnum tók Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Ungmennafélaginu Heklu, þátt í fjórum frjálsíþróttamótum og gekk honum heldur betur vel í hlaupagreinunum. Þann 5. desember tók hann þátt í Ármannsmótinu og keppti þar í 4×200 metra boðhlaupi með A-sveit HSK/Selfoss 2002 í flokki 15 ára. Þar setti sveitin Íslandsmet á tímanum 1:39,47 mín en gamla metið var 1:41,14 og var það búið að standa í 4 ár 11 mánuði og 6 daga. Sveitina skipuðu auk Sindra, Hákon Birkir Grétarsson, Jónas Grétarsson og Dagur Fannar Einarsson, sem koma frá Selfossi en taka verður fram að Sindri er enn 14 ára.

Þann 16. desember var Aðventumót Ármanns 2017. Á því móti náði Sindri nýju Íslandsmeti í 200 metra hlaupi á tímanum 24,50 sekúndur, en gamla metið var rúmlega þriggja ára gamalt 24,58 sek.

Á Coca Cola-móti FH þann 21. desember sló Sindri Íslandsmet frá 15. desember 2014 í eigu Hinriks Snæs Steinssonar FH sem var 39,02 sekúndur, en Sindri hljóp 300 metrana á tímanum 38,45 sek. Í einu og sama hlaupinu voru slegin þrjú aldursflokkamet. Hinrik Snær Steinsson FH setti nýtt aldursflokkamet í flokki 16–17 ára pilta er hann hljóp á tímanum 35,88 sek. Dagur Fannar Einarsson Selfoss setti nýtt aldursflokkamet í flokki 15 ára pilta er hann hljóp á tímanum 37,95 sek.

Áramót Fjölnis var svo haldið 28. desember og keppti Sindri þar í 200 metra hlaupi og gerði hann sér lítið fyrir og sló 12 daga gamalt met sem hann átti sjálfur, þegar sem hann hljóp á tímanum 24,38 sek.

Þetta gera eins og áður sagði fjögur Íslandsmet á einum mánuði og er ánægjulegt að segja frá því að Sindri lokaði keppnisárinu með því að vera valinn í úrvalshóp Frjálsíþróttasamband Íslands veturinn 2017 til 2018 fyrir 200 metra hlaup. Það verður reglulega gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.