3.1 C
Selfoss

Æfingar hafnar á Skilaboðaskjóðunni á Selfossi

Vinsælast

Leikfélag Selfoss hefur hafið æfingar á Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar. Frumsýnt verður í lok febrúar og verða sýningar um helgar í mars og apríl.

Í Skilaboðaskjóðunni segir frá Putta og Möddumömmu sem búa í Ævintýraskóginum, þar sem öll ævintýrin gerast og dvergarnir sinna mikilvægum störfum. Þegar nátttröllið rænir Putta til að breyta honum í tröllastrák sameinast allir íbúar skógarins um að bjarga honum áður en sólin sest á bak við sólarlagsfjall. En nornin, úlfurinn og stjúpan vilja ekki vera með og þá eru góð ráð dýr.

Skilaboðaskjóðan er ævintýrasöngleikur byggður á samnefndri bók Þorvaldar sem kom út árið 1986 og naut mikilla vinsælda. Söngleikurinn var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í nóvember árið 1993 í leikstjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur og sló í gegn. Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri Þjóðleikhússins, samdi tónlist fyrir verkið við texta Þorvaldar og vorið 1994 kom út geisladiskur með tónlistinni í flutningi leikara og hljómsveitar leikhússins.

Skilaboðaskjóðan er ævintýri fyrir börn á öllum aldri og við hlökkum til að sjá ykkur öll í Litla leikhúsinu við Sigtún.

Nýjar fréttir