Árið er 2026 og enn erum við að ræða aðgengi að háskólanámi á landsbyggðinni. Á Suðurlandi býr fjölbreyttur hópur fólks með metnað, hæfileika og vilja til náms, en of oft standa landfræðilegar hindranir í vegi fyrir því að fólk geti sótt sér háskólamenntun í staðnámi. Þetta vitum við og því hafa sveitarfélög og þekkingarsetur sett mikinn metnað í að byggja upp innviði sem taka við nemendum í fjarnámi, halda utan um prófaþjónustu og skapa rými fyrir samfélag nemenda. Engu að síður erum við enn að berjast við það að framboð á fjarnámi er af skornum skammti og því minni líkur á að sá fjölbreytti hópur sem býr á landsbyggðinni hafi hvatann til þess fara í nám enda beinist hugur landsbyggðarfólks ekki eingöngu að hjúkrun og kennaramenntun þó vissulega sé mikil þörf á vel menntuðu starfsfólki í þeim greinum en einnig á fjölmörgum öðrum sérsviðum háskólasamfélagsins. Suðurlandið, líkt og aðrir landshlutar hafa lengi kallað eftir því að fjarnám við Háskóla Íslands verði aukið og í raun ætti það að vera regla frekar en undantekning að bóknám sé í boði sem fjarnám svo tryggja megi jafnræði til náms, atvinnu og samfélagslegrar þátttöku óháð búsetu.
Líkt og fjarvinna hefur fjarnám þegar sannað gildi sitt, ekki síst á landsbyggðinni. Með öflugum stafrænum lausnum og sterkum innviðum er hægt að stunda krefjandi háskólanám óháð búsetu. Á meðan tæknin leyfir okkur að starfa hvar sem er í heiminum, virðast margir íslenskir háskólar enn fastir í að menntun eigi aðeins heima innan veggja háskólasvæðanna.
Það lýsir sér meðal annar í því að framboð háskólanáms í fjarnámi er enn of takmarkað og aðgengi að námsþjónustu og námsráðgjöf háskólanna nær engan veginn nægilega vel til nemenda utan höfuðborgarsvæðisins.
Nauðsynlegt er að hefja markvisst samtal og samstarf við Háskóla Íslands, sem og aðra háskóla landsins um aukið framboð á fjarnámi. Slíkt samstarf þarf að snúast ekki aðeins um kennslu, heldur einnig um jafnt aðgengi að stuðningsþjónustu, svo sem námsráðgjöf en þar væri vel hægt að nýta þá innviði sem eru nú þegar á svæðunum, með þjónustusamningum enda allir sammála um að slík þjónusta ætti ekki að einskorðast við þá sem stunda staðnám.
Háskólar landsins geta ekki lengur skýlt sér á bak við skort á aðstöðu, því líkt og áður var getið höfum við á Suðurlandi nú þegar byggt upp miðstöðvar þekkingar sem eru tilbúnar í slaginn. Dæmi um slíkar miðstöðvar eru hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja, Nýheimum á Höfn og Háskólafélagi Suðurlands sem sýnir að innviðirnir og metnaðurinn eru til staðar í okkar sveitarfélögum. Það eina sem vantar er að háskólasamfélagið og stofnanir þeirra sýni sama metnað og stígi inn í verkefnið með okkur. Með því er ekki aðeins verið að styðja einstaklinga til náms, heldur einnig að fjárfesta í mannauði svæðisins til framtíðar.
Aukið fjarnám og betri samvinna um stuðning fyrir háskólanema styrkir byggðir, dregur úr brottflutningi ungs fólks og eykur möguleika íbúa til að sameina nám, fjölskyldulíf og atvinnu. Fyrir Suðurland, sem býr yfir sterkum samfélögum og fjölbreyttu atvinnulífi, er þetta lykilatriði í sjálfbærri þróun.
Menntun er ein öflugasta byggðastefna sem til er. Með sameiginlegu átaki ríkis, háskóla og sveitarfélaga getum við tryggt að Suðurland og landsbyggðin öll, sé svæði tækifæra – ekki aðeins fyrir þá sem flytja burt, heldur einnig fyrir þá sem kjósa að búa, starfa og mennta sig heima.
Brynhildur Jónsdóttir bæjarfulltrúi í Árborg og
Sandra Sigurðardóttir forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar
Greinarhöfundar eru stjórnarmenn í Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og formenn samfélagsnefndarSASS.


