5.1 C
Selfoss

Hljómsveitin Lótus snýr aftur á svið á Selfossþorrablótinu

Vinsælast

Hljómsveitin Lótus frá Selfossi, sem naut mikilla vinsælda á Suðurlandi á fyrri hluta níunda áratugarins, mun stíga aftur á svið þegar hún kemur fram á Selfossþorrablót 24. janúar næstkomandi. Meðlimir sveitarinnar segjast hlakka mikið til að taka þátt og rifja upp tímabil sem margir muna með hlýju.

Lótus var stofnuð árið 1982 af sex ungum drengjum á Selfossi og hóf fljótlega að spila á skólaböllum áður en sveitin færði sig yfir á sveitaböll víða um Árnes- og Rangárvallasýslur. Hljómsveitin starfaði samfellt í fjögur ár og má segja að hátindur ferilsins hafi verið útihátíðin Gaukurinn í Þjórsárdal um verslunarmannahelgar á árunum 1983 til 1985, þar sem á bilinu 10–12 þúsund gestir sóttu hátíðina. Þá kom Lótus einnig fram á Dalalífi í Þjórsárdal um hvítasunnuna 1984.

Að sögn hljómsveitarmeðlima var þetta ævintýralegur tími sem einkenndist af mikilli spilamennsku, ferðalögum og fjölmörgum eftirminnilegum uppákomum. Sveitin ferðaðist meðal annars á Hornafjörð, í Borgarfjörð og suður með sjó. Þátttaka í fyrstu Músíktilraununum haustið 1982 reyndist einnig mikilvæg fyrir útbreiðslu og kynningu sveitarinnar, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Í upphafi naut Lótus aðstoðar kennarans Hilmars Þórs Hafsteinssonar, sem sinnti umboðsmennsku og samdi ensku textana eftir að hafa hlustað á upptökur af vinsældarlista Rásar 2. Flutningar sveitarinnar voru í höndum SBS Sérleyfisbíla á Selfossi og margra bílstjóra sem ferjuðu hópinn milli staða. Þá komu ýmsir aðrir að starfseminni, meðal annars Óli Öder og Beggi Sigurjóns við rótun, Halli Sæmundar um tíma og Diskótekið Stúdíó með Ingvari Erlings og Birni innanborðs á fjölda balla.

Þótt hljómsveitin hafi hætt reglulegri starfsemi hafa meðlimir hennar komið saman við einstök tækifæri í gegnum árin. Vináttan hefur haldist sterk, sem auðveldað hefur endurfundi þegar stór tímamót hafa verið haldin. Nú, þegar hvert stórafmælið af öðru hefur gengið yfir hljómsveitarfélagana, var ákveðið að dusta af græjunum og þiggja boð um að koma fram á Selfossþorrablótinu.

Stofnendur Lótus eru Hróbjartur Örn Eyjólfsson, bassi, Hilmar Hólmgeirsson, hljómborð, Kjartan Björnsson, söngur, Gunnar Árnason, gítar, Heimir Hólmgeirsson, trommur, og Bragi Vilhjálmsson, gítar.

Nýjar fréttir