Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir er 19 ára söngkona og sveitastelpa frá Lambhaga á Rangárvöllum. Kolfinna hefur brennandi áhuga á söng og tónlist, æfði píanó í 11 ár og stundaði söngnám í sjö ár. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún ágætis reynslu af tónlistarbransanum og hafa síðustu ár verið afar viðburðarík hjá Kolfinnu.
Dagskráin náði tali við Kolfinnu um söngferil hennar og hvernig boltinn byrjaði að rúlla.
Upphaf ferlis sem er á stanslausri uppleið
Tónlistin hefur alltaf verið stór hluti af lífi Kolfinnu frá barnsaldri.
„Ég hef alltaf verið umkringd tónlist og sem barn þá hafði ég lítið val um að taka þátt á einhvern hátt,“ segir Kolfinna. „Mamma er mjög músíkölsk og spilar á mörg hljóðfæri og hún og pabbi eru bæði mínir hörðustu og hreinskilnustu gagnrýnendur en líka mínir bestu stuðningsmenn.“
Frá ungum aldri hefur Kolfinna tekið öll möguleg tækifæri sem henni gáfust til að syngja og tróð sér eins og hún gat í allar söngvakeppnir hvort sem það var á vegum skólans eða á bæjarhátíðum.
„Ég hef alltaf verið mjög athyglissjúk ef ég á að segja eins og er,“ segir hún og hlær.
Kolfinna segir feril sinn í söng hafa í raun hafist 9 ára að aldri þegar henni bauðst að syngja tvö lög á samkomu á Hótel Selfossi. „Ég man svo greinilega hvað ég var rosalega stressuð fyrir því en var svo ánægð þegar ég fékk launin mín sem var einhver smá vasapeningur og glerengill, sem ég á enn í dag.”
Upp frá því hefur Kolfinna stöðugt blómstrað í söngnum. Hún var snemma byrjuð að fá bókanir á ýmsa viðburði, tónleika, á plötum eða í skírnum, svo eitthvað sé nefnt.
„Í dag hef ég sungið með alls kyns hljómsveitum, undirleikurum og frábæru tónlistarfólki út um allt land.“

2025 viðburðaríkast hingað til
Kolfinna hefur aldrei giggað jafn mikið og á liðnu ári og voru flestar helgar Kolfinnu uppbókaðar. Hún söng bæði ein og með hljómsveitum á fjölda viðburða, allt frá skírnum og brúðkaupum til árshátíða og þorrablóta.
Hún hélt einnig tónleika með bekkjarfélögum sínum og samdi mikið af tónlist sjálf. Kolfinna hefur verið að leika sér að því að semja sjálf. Hún bjó til plötu sem lokaverkefni á stúdentsprófi.
„Ég gaf hana reyndar aldrei út en það væri kannski gaman að stefna á að gera það einhvern tímann.“
Aðspurð um hvað stóð upp úr árið 2025 var það klárlega að fá að syngja með hljómsveitinni Koppafeiti á Kótelettunni á Selfossi síðasta sumar en Kolfinna hefur verið að syngja með Koppafeiti, sem er frá Selfossi, í um þrjú ár.
„Það var stór draumur frá því ég var lítil að fá að syngja á Kótelettunni,“ segir hún en bætir svo við: „Það var líka ákveðinn áfangi að taka gigg með Sprite Zero Klan, Blaz Roca og Séra Bjössa.“
Aðspurð út í helstu fyrirmyndir nefnir Kolfinna Stefán Hilmarsson, Ragnhildi Gísladóttur og GDRN sem sterkar fyrirmyndir og segir það hafa verið mikinn heiður að fá að syngja með þeim tveimur fyrrnefndu á liðnu ári.
Harður bransi
Kolfinna segir tónlistarbransann vera harðan og alls ekki auðveldan. Hún segir mikilvægt að vera frek og þora að trana sér fram.
„Þú þarft heldur betur að hafa bein í nefinu á tímum,“ segir hún. Kolfinna nefnir líka að vera eina stelpan á sviðinu geti á tímum verið krefjandi.
„Það getur verið mjög krefjandi að vera eina stelpan á giggum, sem gerist því miður frekar oft. Stundum nennir fólk ekki að tala við mann eða hunsar mann, ég trúi ekki að það sé alltaf ástæðan en stundum fæ ég á tilfinninguna að það sé af því ég sé eina stelpan.“
Kolfinna segir það einnig ákveðna kúnst að þurfa að koma fram þrátt fyrir að vera ekki í toppstandi, bæði líkamlega og andlega, og þurfa þá að láta eins og allt sé í fínasta lagi.
„Maður þarf að hafa fullt af orku sem þarf að skila sér út í sal,“ segir hún.
Hún segir að hún þurfi því stundum að fórna persónulega lífinu; misstir vinahittingar, fjölskylduboð og svefnleysi. Hún segist þó vera heppin með fólkið í kringum sig sem sýni skilning og stuðning. „Ég er þeim mjög þakklát.“
Halda áfram sama hvað!
Þegar hlutirnir ganga ekki upp viðurkennir Kolfinna að hún taki það oft nærri sér, sérstaklega þegar hún veit sjálf að hún hefði getað gert betur. Hún segir þó að það sem haldi henni gangandi sé að minna sig á að heimurinn hrynji ekki þó eitthvað fari úrskeiðis. Slæm gigg og vonbrigði séu hluti af ferlinu og nauðsynleg til að kunna að meta það sem gengur vel. Kolfinna reynir alltaf að taka gagnrýni vel og ekki persónulega. Hún segir gagnrýni mjög mikilvæga til að læra af og gera betur næst.
„Það er margt sem hefur klikkað hjá mér í gegnum tíðina, mörg gigg sem ég fæ bara kjánahroll að hugsa um í dag eða hlutir sem mér hefur verið neitað um eða gigg sem ég hef ekki fengið. Þá er gott að reyna að muna að maður þarf að upplifa slæm gigg eða fá slæmar fréttir til að kunna að meta þegar það gengur vel.“
Kolfinna finnur stundum fyrir stressi, þótt hún kalli það ekki sviðsskrekk. Hún segir stressið þó hverfa um leið og hún stígur á svið.
„Maður bara andar sig í gegnum þetta. Kannski svolítið skrítið ráð, en eitt „öskur“ fyrir gigg hjálpar mikið,“ segir hún.
Söngurinn er lífsorka
Þrátt fyrir að hafa prófað sig áfram í lagasmíðum segist Kolfinna finna mun meiri gleði í því að syngja. Hún lýsir mikilli berskjöldun sem fylgi því að flytja eigin lög, en segir adrenalínið og orkuna sem fylgi sviðsframkomu vera ólýsanlega. Söngurinn hafi fært henni ótal tækifæri, minningar og kynni við fólk sem henni þykir vænt um. Hún telur tónlistina einnig hafa mótað sig sem manneskju og byggt upp sjálfstraust hennar. „Ég hef kynnst mikið af góðu fólki í gegnum þennan bransa sem mér þykir ósköp vænt um í dag.”

Það má taka pláss
Framtíðin er spennandi. Kolfinna hyggst halda áfram að gigga með hljómsveitinni Koppafeiti, stefnir á að halda tónleika á árinu og mögulega gefa út lag. Draumurinn er að sjálfsögðu að starfa sem söngkona í fullu starfi. „Það er náttúrulega stór draumur að fá að trylla lýðinn á Þjóðhátíð!“
Að lokum hvetur Kolfinna ungt tónlistarfólk til að segja já við tækifærum, sama hversu lítil þau virðast. Maður viti aldrei hver sé að hlusta.
„Fake it till you make it er sannasta setning í heimi!“ segir hún.
Síðast en ekki síst leggur hún áherslu á að það sé í lagi að taka pláss og að maður eigi að gera það.
SEG


