5.6 C
Selfoss

Grjónagrautur í boði Sölva kokks

Vinsælast

Sunnlenski matgæðingur vikunnar er Sölvi B Hilmarsson.

Það var skorað á mig að koma með uppskrift í þennan þátt og mun ég ekki skorast undan því og þakka vinkonu minni ævinlega fyrir þessa áskorun.

Fylgdi því hins vegar ósk um ákveðinn rétt, og var ömmubarn vinkonu minnar með í ráðum. Þess ber að geta að barnið er í Stekkjaskóla, og þykir grjónagrauturinn hjá okkur góður, sem og mörgum öðrum börnum.
Það er mér ljúft og skylt (eins og frægur maður hér í bæ, tekur oft til orða) að verða við þeirri bón.

Það er hins vegar þannig að ég nota ekki uppskriftir við mína eldamennsku, nema þegar ég laga grjónagraut í skólanum og þá set ég í pottinn 25 kg grautargrjón, 110 lítra vatn og 60 lítra mjólk, salt og vanilludropa.
Ég geri mér ljóst að slíkt magn er ekki hægt að elda í heimahúsi og ætla ég að reikna þessa uppskrift í þægilegra magn.

-250 gr Scotti grautargrjón. 1,1 l vatn

-600 ml mjólk

-Salt eftir smekk

-Vanilludropar eftir smekk

Það má að sjálfsögðu margfalda þessa uppskrift.

Það fyrsta sem gjört er er að setja grjón og vatn í pott og soðið vel, eða þar til að grjónin hafa drukkið í sig vatnið og eru orðin mjúk, þá er mjólkin sett út í. Saltið og vanilludroparnir eru settir út í hvort sem er með vatninu eða mjólkinni.

Þegar hingað er komið þarf að nostra við grautargerðina, þ.e.a.s. að hræra vel í, þar sem að mjólkin hefur þann hvimleiða eiginleika að brenna við ef ekki er hrært nægilega vel í pottinum. Það þýðir lítið að hanga á samfélagsmiðlum við þessa grautargerð, heldur hafa hugann við efnið svo vel fari. Þess ber að geta að þegar ég laga graut heima hjá mér, læt ég suðuna koma upp með grjónunum og vatninu, síðan dreg ég pottinn af hellunni og set lok á og hvíli, geri þetta 2 til 3 sinnum.

Það er eitt sem ekki má flaska á, en það er að skilyrt er að vera í góðu skapi við alla eldamennsku og leggja sál sína í gjörninginn og viti menn / konur, útkoman verður góð!
Snætt með kanillsykri, rúsínum og rjóma.
Óska ég ykkur hið besta við grautargerð þessa, sem og allt sem þið takið ykkur fyrir hendur!


Skora ég á Birnu Gestdóttur að stíga hér á stokk og greina frá sínu landsfræga lagsagne, en margir hafa mikla matarást á henni, þess ber hins vegar að geta að hún er líka góð í grænmetisréttum og hefur verið að gauka uppskriftum til fólks á liðnum árum.

Góðar stundir!

Nýjar fréttir