Jón Arnar í Heiðurshöll ÍSÍ, en framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti útnefninguna einróma á fundi sínum í nóvember síðastliðnum. Jón Arnar er 27. íþróttamaðurinn sem útnefndur er í Heiðurshöllina og fyrsti íþróttamaðurinn af sambandssvæði HSK sem hlotnast þessi heiður.
Afhending viðurkenningarinnar fór fram þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2025 voru tilkynnt.
Jón Arnar Magnússon er fæddur 28. júlí 1969. Hann hóf snemma keppni í frjálsíþróttum og varð strax sigursæll. Jón Arnar varð Norðurlandameistari í tugþraut árið 1988 í Svíþjóð. Ári síðar fékk hann fimm gullverðlaun í flokki 15-22 ára á Íslandsmeistaramótinu.
Jón Arnar keppti á þrennum Ólympíuleikum, meðal annars í tugþraut á Ólympíuleikunum í Atlanta þar sem hann varð í 12. sæti með 8.274 stig, sem var nýtt Íslandsmet í greininni.
Meðal árangurs Jóns Arnars má nefna bronsverðlaun á EM innanhúss í sjöþraut árið 1996 og bronsverðlaun á HM innanhúss í sjöþraut 1997. Þá vann hann þrenn gullverðlaun og eitt brons á Smáþjóðaleikum 2001. Jón Arnar var kjörinn Íþróttamaður ársins árin 1996 og 1997.
Jón setti fjölda Íslandsmeta á sínum ferli og ennþá standa metin hans í 110 m grindarhlaupi frá 1997, tugþraut frá 1998, 60 m grindarhlaup innanhúss frá 2000, langstökk innanhúss frá 2000 og sjöþraut innanhúss frá 1999. Hann á sem sagt 25-28 ára gömul met sem enginn hefur enn slegið. Þá á hann einnig Íslandsmet í 50 m grindahlaupi frá 2000 og 300 m hlaupi frá 1994.
Jón Arnar setti fjölmörg HSK met á ferlinum og í dag á hann samtals 26 gildandi HSK met í fjölda greina. Það elsta er 46 ára gamalt, en árið 1980 stökk hann 1,40 metra í hástökki í flokki 11 ára drengja.



