-0.7 C
Selfoss

Ný líkamsrækt opnar fljótlega

Vinsælast

Undirbúningur stendur nú yfir fyrir opnun nýrrar og glæsilegrar líkamsræktaraðstöðu í Grímsnes- og Grafningshrepps. Aðstaðan hefur verið hönnuð með fjölbreytta notkun í huga og verður búin nýjustu tækjum og búnaði til að mæta þörfum íbúa á öllum aldri.

Í líkamsræktinni verða hágæða þrek- og styrktartæki frá Life Fitness, ásamt vönduðum lyftingabúnaði frá Hreysti. Þar verður góð aðstaða fyrir styrktarþjálfun, þar á meðal ólympískar lyftingar og aðrar sérhæfðar æfingar.

Einnig verður í boði sérstakur yoga- og þreksalur sem opnar á fjölbreytta möguleika fyrir hópaþjálfun, námskeið og skipulagða heilsueflingu. Í heild er lögð áhersla á sveigjanleika og aðstöðu sem nýtist bæði einstaklingum og hópum.

Í líkamsræktaraðstöðunni er jafnframt gert ráð fyrir rými fyrir heilsutengda starfsemi, svo sem sjúkraþjálfun, nudd eða aðra meðferðartengda þjónustu, sem styrkir enn frekar heildstæða nálgun á heilsu og vellíðan.

Lögð er áhersla á að gjaldskrá líkamsræktarinnar verði hagstæð fyrir notendur íþróttamiðstöðvarinnar. Með því vill sveitarfélagið tryggja gott aðgengi að heilsueflandi þjónustu og hvetja íbúa til reglulegrar hreyfingar og virks lífsstíls.

Með uppbyggingu nýrrar líkamsræktaraðstöðu er markvisst verið að ýta undir lýðheilsu, forvarnir og bætt lífsgæði íbúa. Aðgengileg og vönduð aðstaða skapar tækifæri fyrir fólk á öllum aldri til að stunda hreyfingu, efla líkamlega og andlega heilsu og stuðlar þannig að sterkari og heilbrigðara samfélagi.

Nú er beðið eftir lokaúttekt og afgreiðslu umsóknar um viðbótarleyfi frá heilbrigðiseftirliti. Að þeim ferlum loknum verður hægt að opna aðstöðuna formlega. Nánari upplýsingar um opnun og þjónustu verða kynntar þegar nær dregur.

Grímsnes- og Grafningshreppur

Nýjar fréttir