-2.1 C
Selfoss

Bragi Bjarnason gefur áfram kost á sér í 1. sæti

Vinsælast

Kæru vinir, fjölskylda og íbúar í Árborg

Ég hef fyrr í vetur lýst yfir áhuga mínum að halda áfram að vinna fyrir íbúa Árborgar en svo það sé formlegt þá hef ég tekið þá ákvörðun að gefa áfram kost á mér að leiða framboð Sjálfstæðisflokksins í Sveitarfélaginu Árborg vegna komandi bæjarstjórnarkosninga í vor. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er prófkjör flokksins sem fer fram 7. mars nk. og óska ég eftir stuðningi í 1. sæti listans.

Það hafa verið forréttindi og heiður að leiða lista Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjórn Árborgar sl. fjögur ár. Kjörtímabilið sem nú er að líða hefur verið fullt af áskorunum en um leið mörgum sigrum fyrir samfélagið sem stendur að mínu mati sterkara í dag.

Ég er 44 ára, eiginmaður og faðir þriggja barna og verið svo lánsamur að fá að ala þau upp hérna í Árborg. Ég er menntaður íþróttafræðingur og með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Hef starfað hjá Sveitarfélaginu Árborg í 18 ár og fullur metnaðar að nýta þá reynslu og þekkingu sem ég hef til áframhaldandi vinnu fyrir samfélagið á breiðum vettvangi.

Legg áherslu á ábyrgan rekstur sveitarfélagsins þar sem öflug fjármálastjórn skapar tækifæri og forsendur til lægri álaga og gjalda. Fjölskyldan er ávallt í fyrirrúmi og mikilvægt að við höldum áfram að efla verkefni sveitarfélagsins í tengslum við farsæld barna og ungmenna. Starf eldri borgara er með því öflugasta á landinu í Árborg og mikilvægt að styðja ötullega við starfsemina enda á að vera gott að eldast í Árborg. Vil halda áfram að horfa til framtíðar í skipulagsmálum og fjölga atvinnutækifærum svo íbúar hafi fleiri valmöguleika um störf í nærsamfélaginu.

Þessi verkefni ásamt fleirum vil ég leggja mín lóð á vogarskálarnar svo samfélagið okkar geti haldið áfram að vaxa en á þeim forsendum að innviðir, líkt og leik- og grunnskólar, hitaveita og önnur mikilvæg þjónustu verði tilbúin undir slíkt. Marmiðið er að sveitarfélagið geti veitt okkur íbúum betri þjónustu.

Vil vera sterk rödd Sveitarfélagsins Árborgar í samstarfi við önnur sveitarfélög og ríkisvaldið um verkefni og þjónustu á svæðinu. Má þar nefna heilsugæsluna, hjúkrunarheimili og samgöngur. Það er hagsmunamál sem snertir okkur öll að halda góðri þjónustu í nærsamfélaginu.

Sem foreldri þriggja barna hef ég kynnst því öfluga starfi sem er í leik- og grunnskólum og frístundastarfinu í Árborg. Það er að mínu mati frábært að ala upp börn í Sveitarfélaginu Árborg og vil ég leggja allan minn metnað í að það verði áfram eftirsóknarvert að búa í sveitarfélaginu.

Ég sækist aftur eftir oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins þar sem ég tel að kraftar mínir nýtist til að leiða samstilltan hóp fólks til góðra verka fyrir samfélagið. Öflugt lið þar sem allir hafa rödd og stuðning til að ljúka verkefnum og ná settum markmiðum. Það hefur gengið vel á síðustu fjórum árum og mörg tækifæri til að gera enn betur á næstu árum.

Ég vonast eftir því að eiga gott samtal við alla áhugasama á næstu vikum og verður hægt að fylgjast með í helstu fjölmiðlum, Facebook og #bragibjarnason á Instagram.

Vil að endingu hvetja einstaklinga sem hafa áhuga að starfa á þessum vettvangi að bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem fram fer þann 7. mars.

Bragi Bjarnason

Nýjar fréttir