Í þriðju viku janúar halda KLAK – Icelandic Startups, Íslandsstofa, Tækniþróunarsjóður og Vísindagarðar í sameiginlega hringferð um landið undir yfirskriftinni „Nýsköpun og ný tengsl – hringferð um landið“. Haldnir verða kynningarfundir ásamt staðbundnum samstarfsaðilum fyrir alla þá sem hafa áhuga á að setja af stað verkefni í nýsköpun eða þróa viðskiptahugmynd.
Hringferðin fer fram dagana 19.–26. janúar 2026 og verður stoppað á átta stöðum víðs vegar um landið, þar á meðal á Selfossi.
Mánudaginn 19. janúar verður haldinn opinn kynningarfundur í Fjölheimum á Selfossi kl. 11:00–13:00. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Háskólafélag Suðurlands, SASS og Orkídeu.
Á viðburðinum verða fjögur 15 mínútna erindi, þar sem þátttakendur fá kynningu á því stuðningsumhverfi sem stendur til boða.
- KLAK – Icelandic Startups er meðal fremstu stuðningsaðila nýsköpunar í Evrópu samkvæmt Financial Times. KLAK rekur öfluga og metnaðarfulla dagskrá allt árið sem miðar að því að styrkja einstaklinga með hugmyndir og fyrirtæki í vexti með fræðslu, tengslaneti og markvissum stuðningi. Fulltrúi KLAK segir frá þeirri þjónustu sem félagið býður upp á þátttakendum að kostnaðarlausu.
- Íslandsstofa sinnir markaðssetningu fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar og styður íslensk fyrirtæki í sókn á erlenda markaði. Þeirra erindi fjallar um aðgang að alþjóðamörkuðum, erlenda fjármögnun og hvernig á að byggja upp markvisst tengslanet sem nýtist í uppbyggingu fyrirtækja.
- Tækniþróunarsjóður styður fjölbreytt nýsköpunarverkefni með styrkjum frá hugmyndastigi til markaðsvæðingar. Sjóðurinn býður m.a. upp á Fræ, Sprota-, Vöxt- og Markaðsstyrki og styður einnig einkaleyfa- og rannsóknarverkefni.
- Á Vísindagörðum blómstrar samfélag þar sem háskólar, fyrirtæki og rannsóknarstofnanir vinna saman að skapandi lausnum á helstu áskorunum samtímans. Í erindi Vísindagarða verður fjallað um stuðningsumhverfi garðanna með sérstakri áherslu á tækifæri og vaxtarmöguleika í Mýrinni, samfélagi frumkvöðla. Þá verður kynnt uppbygging á nýju djúptæknisetri, sérhæfðri aðstöðu fyrir vísindalega nýsköpun.
Að loknum erindum gefst tími fyrir spurningar, samtal og tengslamyndun, þar sem gestir geta rætt sín verkefni, fengið ráðgjöf og tengst beint fulltrúum allra stofnananna.
Markmið hringferðarinnar er að auka aðgengi að upplýsingum og stuðningi og byggja ný tengsl milli frumkvöðla, fyrirtækja og aðila í nýsköpunarumhverfinu.
Kynningarfundurinn á Selfossi næstkomandi mánudag er opinn öllum og ókeypis og er sérstaklega ætlaður þeim sem eru með viðskipta- eða nýsköpunarhugmyndir – hvort sem er á fyrstu stigum eða tilbúin að sækja á nýja markaði.



