-4.9 C
Selfoss

Miðstöð þolenda kynbundins ofbeldis á Suðurlandi

Vinsælast

Þann 15. desember sl. var haldinn á Hótel Stracta á Hellu stofnfundur sjálfseignarstofnunar Sigurhæða miðstöðvar þolenda kynbundins ofbeldis á Suðurlandi.  Aðdragandann að þessari stofnun má rekja til ársins 2020 þegar að Hildur Jónsdóttir ein systra  í Soroptimistaklúbbi Suðurlands kom með tillögu að tilraunaverkefni „þolendamiðstöð gegn kynbundnu ofbeldi á Suðurlandi“.   Á fyrsta stjórnarfundi klúbbsins eftir sumarfrí það ár var ákveðið að leggja af stað í þessa vegferð.  Stofnfundur Sigurhæða  var haldinn 20.mars 2021 í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Í upphafi grunaði engri okkar að þörfin á þessari þjónustu væri slík sem raun ber vitni. Heyrðum jafnvel að engin kona í þessu og hinu sveitarfélaginu þyrfti á þessari  þjónustu að halda. „Þetta er ekki hjá okkur“ .  En raunveruleikinn er sá að skjólstæðingar Sigurhæða koma úr nær öllum póstnúmerum á Suðurlandi og hafa 452 konur komið í Sigurhæðir á þessum tæpu 5 árum. Frá upphafi hefur starfað hjá Sigurhæðum úrvals fagfólk á sviði sálgæslu – og uppbyggingar skjólstæðinga sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi. Öll sveitarfélögin á Suðurlandi  auk lögreglu – og sýslumannsembætanna sem og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa verið og eru samstarfsaðilar verkefnisins.

En… nú er þetta ekki lengur tilraunaverkefni. Niðurstaðan er sú að mikil þörf er á þessari þjónustu í heimabyggð. Soroptimistasystur á Suðurlandi hófu umræðu um sjálfseignarstofnun Sigurhæða fljótlega eftir 4 ára afmælið í mars 2025 að stjórn þeirra færu úr höndum klúbbsins og var ástæðan fyrst og fremst niðurstaða þjónustukönnunar Sigurhæða frá því  í september 2024 sem Kristín A. Hjálmarsdóttir sjálfstætt starfandi kynjafræðingur gerði. En þar segir Kristín:

„Framtíðarsýn fyrir Sigurhæðir virðist í megindráttum nokkuð skýr og óhætt að segja að hún sé bæði björt og metnaðarfull. Hún einkennist af sýn á Sigurhæðir sem farsælt samstarfsverkefni með vel skilgreint hlutverk og tryggan fjárhagslegan grundvöll sem býður upp á fjölbreytta hágæða – stað – og fjarþjónustu fyrir þolendur af öllum kynjum, börn þeirra og fjölskyldur, sinna fjölbreyttu fræðsluhlutverki og er leiðandi á sínu sviði“.

Kristín Anna hafði áður gert þjónustukönnun í maí  2022 og þar segir í lokaorðum: „þegar á heildina er litið hefur Sigurhæðaverkefnið gengið afskaplega vel. „Soroptimistaklúbbur Suðurlands og samstarfsaðilar hafa náð öllum markmiðum sínum þó alltaf sé tækifæri til að gera enn betur. Á aðeins einu ári hefur tekist að þróa nýtt metnaðarfullt meðferðarúrræði fyrir þolendur kynbundins ofbeldis sem samstarfsaðilar nýta og treysta. Skilaboð þjónustuþega til stjórnenda eru skýr; Ekki hætta – þið megið alls ekki hætta!.

Katrín Ósk Þorgeirsdóttir, Anný Ingimarsdóttir, Svanhildur Ólafsdóttir, Heiða Ösp Kristjánsdóttir, Arndís Soffía Lárusdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir og Gunnbjörg Björnsdóttir. Mynd: Aðsend.

Í sumarbyrjun 2025 var skipuð undirbúningsnefnd að þessari stefnumótunarvinnu og var Þórný Björk Jakobsdóttir Soroptimistaklúbbi Suðurlands formaður nefndarinnar. Aðrar með henni voru skipaðar Arna Ýrr Gunnarsdóttir verkefnastjóri farsældarsviðs hjá  SASS , Margrét Frímannsdóttir fyrrverandi alþingismaður,  Elísabet  Lorange listmeðferðarfræðingur og teymisstýra Sigurhæða og Anna Björg Stefánsdóttir Soroptimistaklúbbi Suðurlands sem jafnframt hefur gegnt starfi verkefnisstjóra Sigurhæða frá 1.júní s.l.

Nefndin lauk störfum í október 2025. Stjórn soroptimistaklúbbsins  fékk tillöguna  til umsagnar og á félagsfundi þann 24.nóvember s.l. var tillaga undirbúningsnefndar að stofnun sjálfseignarstofnunar Sigurhæða samþykkt samhljóða. Stofnfundur var svo haldinn á Hótel Stracta á Hellu 15.desember s.l. og sóttu fundinn rúmlega 40 manns. Fundarstjóri var Elín Björg Jónsdóttir fyrrv. formaður BSRB. Þar var kosið í stjórn  og fulltrúaráð hinnar nýju sjálseignarstofnunar. Ingibjörg Stefánsdóttir Soroptimistaklúbbi Suðurlands var kosinn formaður stjórnar og Sólveig Ingdóttir Soroptimistaklúbbi Suðurlands mun gegna formennsku fulltrúaráðs.  Ingibjörg rakti aðdragandann að stofnun Sigurhæða og starfi þeirra. Tónlistaratriði var frá Tónlistarskóla Rangæinga og í lok fundar var boðið upp á  léttar veitingar.

Ingibjörg Stefánsdóttir. Mynd: Aðsend.

Það er ósk okkar allra, sem að Sigurhæðum stöndum, að þær verði sunnlenskum konum og fjölskyldum þeirra  vörn og skjól um ókomin ár.

Ingibjörg Stefánsdóttir formaður stjórnar sjálfseignarstofnunar Sigurhæða og fráfarandi formaður Soroptimistaklúbbs Suðurlands.

Sigurhæðir Fagurgerði 2 Selfossi. Mynd: Aðsend.

Nýjar fréttir