Matgæðingur vikunnar er Gunnar Karl Gunnarsson.
Ég þakka fyrir heiðurinn að fá að vera sunnlenski matgæðingur vikunnar.
Ég ætla að sýna ykkur hvernig ég geri afar einfaldan en mjög góðan lasagna-rétt sem konan kenndi mér. Þessi réttur er fullkominn á þeim tímum sem maður veit ekkert hvað á að hafa í matinn og vill bara finna eitthvað einfalt en gott.
Uppskriftin er mjög sveigjanleg og einföld að það er engin nákvæm mæling á hráefnunum nauðsynleg að mínu mati. Ég hef alltaf bara prófað mig áfram og svo er alltaf hægt að bæta við t.d. öðru grænmeti eftir smekk.
Hráefni:
- Olía
- Ungnautahakk
- Rauðlaukur
- Vorklaukur
- Hvítlauksrif
- Sveppir
- Kotasæla
- Ostur
- Parmesan ostur
- Lasagne pasta
- Hvítlauks- og chili sósa
Aðferð:
-Ég byrja á að steika allar tegundir lauks og sveppi í um 2 mín.
-Ég tek það svo til hliðar af pönnunni og steiki hakkið.
-Bæti svo lauknum og sveppunum út í hakkið og læt malla í um 5 mínútur.
-Því næst bæti ég sósunni ofan í hakk-laukblönduna og læt malla á lágum hita í 10-15 mínútur.
-Því næst tek ég fram eldfasta mótið og set hakk, kotasælu og lasagna-pasta í þessari röð og dreifi í eldfasta mótið 2-3 sinnum.
-Best er að setja vel af osti yfir áður en rétturinn fer í ofn. Baka réttinn í ofni í um 30-35 mínútur á 180°. Ég leyfi lasagne-réttinum að kælast í um 10 eftir á.
-Ég mæli með því að strá smá parmesan osti yfir og bera fram með hvítlauksbrauði og meðlæti. Þá er ekkert eftir nema bara að njóta!
Ég skora næst á hana tengdamóður mína, Kristbjörgu Bjarnadóttur í næsta matgæðing vikunnar.


