Inni á lyflækningadeild HSU liggur fjölbreyttur hópur. Einstaklingar með langvinnandi sjúkdóma, fólk sem hefur veikst skyndilega vegna sýkinga eða af hjarta- eða öndunarfærasjúkdómum, eða einstaklingar sem þurfa náið eftirlit vegna flókinna einkenna. Reynt er eftir fremsta megni að útskrifa þá sem hægt er fyrir jól en því miður er það ekki alltaf hægt. Þeir sem treysta sér til að fara heim í leyfi, þó ekki nema brot úr degi, fara í leyfi. Aðrir sjúklingar verja hátíðunum í góðum höndum starfsfólks Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Guðríður Ester Geirsdóttir, aðstoðardeildarstjóri á Lyflækningadeild og Rán Jósepsdóttir, ljósmóðir á Lyflækningadeild eru meðal þeirra sem standa vaktina á HSU yfir hátíðarnar.
Hátíðleg stemning þrátt fyrir aðstæður
Aðfangadagskvöld á lyfjadeildinni er ekki eins og hefðbundinn vinnudagur. Þó að verkefnin séu þau sömu og aðra daga segir Rán vera ákveðinn hátíðleiki yfir deginum. Reynt er að leggja áherslu á að skapa hátíðlega stemningu á deildinni fyrir sjúklinga.
„Við reynum að hafa hátíðlega stemingu á deildinni og erum með stærri máltíð dagsins um kvöldið. Við reynum að bjóða sem flestum í bað á aðfangadag og þeir sem geta fara í sparifötin. Yfirleitt er útvarpið í gangi og þeir sem vilja hlusta á jólakveðjurnar og svo messuna. Hefð er fyrir því að deildarstjóri gefi þeim sem er á kvöldvaktinni litla jólagjöf sem við opnum saman,“ segir Guðríður.
Sumir sjúklingar ná að kíkja heim í stutta stund, en auðvitað komast ekki allir heim og þá koma oft nánustu aðstandendur og borða hér hjá sínu fólki á deildinni.
„Það eru oft smáatriðin sem skipta mestu máli, eins og jólakveðjurnar, messan, umhyggja og kærleikur sem ríkir þetta kvöld. Jólamaturinn er einnig einstaklega góður hér á sjúkrahúsinu og setur punktinn yfir i-ið. Það er mjög gefandi að vera til staðar fyrir þá sem ekki geta verið heima í faðmi fjölskyldu sinnar á aðfangadagskvöld og maður finnur vel fyrir þakklæti sjúklinga. Samheldnin meðal starfsfólksins er líka sterk yfir þennan tíma,“ segir Rán.
Fjarveran frá fjölskyldunni á aðfangadag
Bæði Guðríður og Rán segja erfitt að vera að heiman á aðfangadagskvöld. Það er ekkert auðvelt við það að vera frá fjölskyldu yfir hátíðarnar.
„Maður missir af hefðum, samveru og dýrmætum augnablikum. Flestar fjölskyldur læra að vera sveigjanlegar þegar fjölskyldumeðlimur vinnur á heilbrigðisstofnun. Sumir halda jól fyrr eða seinna eftir því sem við á.“
Það er þó boðið starfsfólki upp á að vinna hálfa vakt ef annar hjúkrunarfræðingur fæst á móti og er það einnig í boði fyrir sjúkraliða.
„Í ár mæti ég kl. 12 á hádegi og verð til kl. 19:30 og þá tekur annar hjúkrunarfræðingur við. Þessi skipti sem ég hef unnið á aðfangadagskvöld þá hef ég ýmist komið heim um klukkan 20 eða verið heila vakt til miðnættis. Ef ég er hálfa vakt þá borðum við fjölskyldan milli kl. 20 og 21 en þegar ég er heila vakt borðar fjölskylda mín á hefðbundnum tíma og við borðum eftirréttinn saman um miðnættið. Þá opnum við líka pakkana,“ lýsir Guðríður vaktinni sinni í ár. „Fjölskyldan hefur fullan skilning á því að við sem vinnum á sjúkrahúsi þurfum að vinna þennan dag sum árin,“ bætir hún svo við.
Rán mætir hins vegar í vinnu klukkan 19:30 og því heldur hún jólin fyrr um daginn en venjulega.
„Í mínu tilfelli höldum við jólin fyrr á aðfangadag þetta árið þar sem ég mæti í vinnu kl. 19:30. Við borðum heima kl. 17:00 og náum að opna nokkra pakka áður en ég fer til vinnu. Fjölskyldan mín borðar svo eftirréttinn þegar ég er farin. Það skiptir ekki öllu máli að halda jólin á nákvæmlega ákveðnum tíma; aðalatriðið er að vera með sínu fólki og njóta samverunnar,“ segir hún.
Hvað er fallegast við starfið á þessum tíma árs?
„Mér finnst alltaf hátíðlegt að vinna á jólunum. Það er einhver áþreifanlegur friður yfir þó svo það fylgi því líka sorg að sumir sjúklingar geti ekki verið hjá ástvinum sínum á þessum tíma. Við starfsfólkið reynum okkar besta til að fólki líði sem best í erfiðum aðstæðum og leggjum okkur fram við að halda í hátíðarandann og vera til staðar fyrir sjúklingana okkar,“ segir Guðríður.
„Það fallegasta er samveran á þessu hátíðlega kvöldi. Að vera til staðar, sýna umhyggju, hlusta og styðja þá sem þurfa á því að halda. Samkennd og umhyggja fyrir náunganum þetta kvöld minnir mann líka á hvers vegna maður valdi sér þetta æfistarf,“ segir Rán.
Jólakveðja
Guðríður og Rán vilja senda hlýjar jólakveðjur til allra þeirra sem ekki geta verið heima með sínu fólki á aðfangadagskvöld.
„Við viljum einnig óska Sunnlendingum og Íslendingum öllum gleðilegra jóla, megi nýtt ár færa okkur von, hlýju og kærleika.“


