Á þessu ári voru tíu jólatónleikar í boði Tónskóla Mýrdalshrepps undir stjórn Alexöndru Chernyshovu, tónskólastjóra. Síðustu tvö ár þar á undan voru jólatónleikarnir átta talsins. Tónleikarnir voru haldnir í flyglasal Tónskólans, félagsheimilinu Leikskálum, á Hjallatúni fyrir eldri borgara, verslunarmiðstöðinni IceWear, í Víkurkirkju, Leikskólanum Mánalandi og hjá Súpufélaginu.
Tónskólinn hefur stækkað og blómstrað þriðja árið í röð. Við tónskólann starfa sex tónlistarkennarar og kennt er á fjölbreytt hljóðfæri, söng og tónfræðigreinar. Að auki er samstarf við grunnskólann um tónmennta- og kórkennslu, hljóðfærasmiðju og valgrein fyrir unglinga. Mikill metnaður er lagður í að ala upp unga tónlistarnemendur.
Í boði er tónlistarforskólanám Syngjandi fjölskylda fyrir börn frá 5 mánaða til 5 ára og foreldra þeirra. Við tónlistarskólann starfar einnig Kammerkórinn Harpa, sem fór í sumar í söngferð til Ítalíu, stúlknakórinn Syngjandi alda og gítarhópur.
tónblær var haldin annað ár í röð og voru sex tónleikar haldnir með tónlistarmönnum í hæsta gæðaflokki. Tón-klúbbur Tónskólans hefur verið vinsæll þriðja ár í röð og margir þekktir Mýrdælingar hafa komið og deilt reynslu og miðlað tónlist sinni.
Það er athyglisvert að fyrir þremur árum tók Alexandra við nánast auðu blaði: húsi án skilta og stofumerkinga, án tónlistarkennara og nemenda. Hún hefur síðan látið draum margra Mýrdælinga um að eiga blómstrandi tónlistarskóla rætast. Hún er sannarlega harðduglegur, metnaðarfullur frumkvöðull og stjórnandi sem hvetur fólk áfram, veitir innblástur og deilir reynslu sinni og þekkingu af mikilli fagmennsku.
Í dag stunda við tónskólann sirka hundrað, fimmtíu og fjórir nemendur í hljóðfæra, -söng- og tónfræðigreinum, auk forskóla- og kórnáms. Fram undan hjá tónskólanum er að bjóða upp á gítarhóp fyrir yngri nemendur og bílskúrsband sem aðalgrein í tónlistarnámi við Tónskóla Mýrdalshrepps.
Einkunarorð tónskólans eru – tónlist, gleði og samhljómur.

