-5 C
Selfoss

Litlu hlutirnir auka þakklæti og gleði í aðdraganda jóla

Vinsælast

Desember er mánuður hátíðar og gleði en þó fyrst og fremst hátíð barnanna. Börn á öllum aldri eru með óskir og væntingar til jólanna, óskir sem við viljum uppfylla og gleðja barnshugann og hjartað. Til þess setjum við á okkur auknar kröfur og aukið álag í jólamánuðinum, en of margir finna fyrir of miklu álagi, kvíða og jafnvel depurð.

Það er mikilvægt að við sýnum okkur mildi og reynum að sjá jákvæðu hliðarnar sem eru allt í kringum okkur. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli eins og samvera með þeim sem okkur þykir vænt um og samkennd í eigin garð og annarra. Að iðka þakklæti, vera í núinu og njóta líðandi stundar eykur ánægju og gleði. Prófaðu að staldra við og anda djúpt, opnaðu fyrir skilningarvitin og finndu hvernig hægt er að róa hugann. Andaðu að þér jólunum og gefðu þér auka tíma til að njóta með sjálfri/um þér eða fjölskyldu og vinum. Jólin koma alltaf þó að okkur finnst ekki allt tilbúið en barnshugurinn óskar þess helst að hafa fullorðna fólkið heilshugar til staðar. Hvílum ytra áreiti eins og síma, tölvur og sjónvarp í aðventunni og um jólin. Njótum samverunnar og eflum samkennd til náungans en ekki síst til okkar sjálfs. Kærleiksrík jólakveðja.

Guðlaug Ósk Svansdóttir
Nemandi í Jákvæðri sálfræði

Nýjar fréttir