-5.5 C
Selfoss

JÓLAHÚFA GUMMA LITLA

Vinsælast

Þegar jólin nálgast fer fólk að huga að jólagjöfum. Þá er oft sniðugt að gefa eitthvað heimagert. Jólahúfa Gumma litla er tilvalin jólagjöf fyrir börn á öllum aldri og ætti hver sem er að geta prjónað hana.

Stærðir: 1 -3 ára 4-6ára 7-10 ára
Höfuðmál 43-47 cm 48-52 cm 53-57cm
Lengd í cm að úrtöku 14 cm 16 cm 18 cm

Athugið að börn eru mis höfuðstórt og því gott að taka mál áður en hafist er handa.

GARN:

Bio Balance frá BC garn, eða það garn sem hentar prjónfestunni Garnið fæst hjá Bobbý Hveragerði og bobby.is

Stærðir 1-3 ára 4-6 ára 7-10ára
Garnmagn 50 gr 50 gr 100 gr

 

Prjónfesta er 25 lykkjur á 10 cm í sléttu prjóni á 3,5 mm prjóna

ÞAÐ SEM ÞARF:

Hringprjóna 3 og 3,5 mm, 40 Sokkaprjóna /crazy trio 3 og3,5 mm Stoppunál til að ganga frá endum.

TÆKNIUPPLÝSINGAR :

Húfan er prjónuð í hring. Fyrst er stroff prjónað, ein lykkja slétt og ein lykkja brugðin. Stroffið er annað hvort saumað niður eða prjónað saman svo það verði tvöfalt.

Í lokin er búinn til skúfur og band snúið til að festa skúfinn við húfuna.

UPPSKRIFT:

Fitjið laust upp, 108 – 120 – 132 lykkjur á 3 mm prjóna og prjónið eina lykkju slétt og eina lykkju brugðið út umferð, setjið prjónamerki við upphaf umferðar.

Prjónið Stroff 10 – 11 – 12 cm (verður 5 – 5,5 – 6 cm). Prjónið saman stroffið, það er gert þannig: Takið upplykkjur þar sem fitjað var upp, með auka prjón, brjótið verkið innaf þannig að lykkjurnar sem teknar voru upp eru fyrir innan, skiptið yfir á prjón 3,5 mm og prjónið eina lykkju af hvorum prjóni alla umferðina með sléttu prjóni. Þegar húfan er orðin 14 – 16 – 18 cm er byrjað á úrtöku.

ÚRTAKA:

  1. Úrtaka *prjónið 9 – 10 – 11 lykkjur slétt, prjónið næstu 2 lykkjur saman, (verður 1 lykkja)* Prjónið áfram eins og sagt er innan stjörnu (*…*).
  2. Prjónið 7 umferðir án úrtöku, slétt.

ATH! Næst þegar tekið er úr er einni lykkju færra á milli úrtaka s.s. í stað 10 lykkja eru 9 lykkjur o.s.frv.

Á milli úrtaka eru alltaf 7 umferðir, takið úr þar til að 12 lykkjur eru eftir. Slítið frá og þræðið bandið í gegnum allar lykkjurnar.

Skúfur:

Það er hægt að nota hvað sem er til að vefja upp garnið í skúfinn t.d. búa til skapalón úr pappa, hér er vídeóslóð af fínum skúf: https://youtube.com/shorts/cMOqHhLP25c?si=_V6q_M9w2ICTgExc

Vefjið garninu utan um pappírsörkina þar til óskaðri þykkt er náð. Klippið bandið frá. Þræðið band í nálina og stingið undir vafninginn, hnýtið vel. Fjarlægið af pappírnum og notið annan þráð til þess að binda fast utan umþræðina á öðrum endanum eða gerið snúru (snúa bandið saman) og notið þetta band/snúru líka til að festa við sjálfa húfuna.

Vefjið ca 2 cm frá hnútnum nokkrum sinnum og hnýtið vel. Klippið upp þræðina á endanum sem ekki eru bundnir saman.

Gangið vel frá eftir að snúna bandinu sem heldur skúfnum hefur verið komið fyrir á enda húfunnar, festið vel með spottanum.

Gangið vel frá endum, ef þið valið var að sauma niður stroffið í staðinn fyrir að prjóna saman, passið að sauma stroffið ekki of strekkt niður.

Skolið í höndum með ullarsápu og köldu vatni, kreistið vatnið úr og leggið til þerris.

Uppskrift: Bobbýjardætur hjá Bobby.is
Breiðumörk 13
810 Hveragerði
Sími: 774-2324
Email: info@bobby.is 

Nýjar fréttir