
Nú er aðventan gengin í garð og sjálf jólahátíðin nálgast óðfluga. Um leið og aðventan hefst byrjum við flest að telja niður til jóla og um leið fara hinar ýmsu hefðir að koma í ljós á ný.
Hefðirnar eru mjög misjafnar og sumar hefðir hafa gengið í arf svo ættliðum skipti. Hefðin heldur þannig áfram og svo gleymum við af hverju eitthvað byrjaði. Dæmi um slíka hefð er um konuna sem sagaði alltaf hangilærið til helminga um hver jól áður en hún sauð það. Svo þegar hún var spurð hvers vegna hún gerði þetta var svarið „því mamma gerði það alltaf svona.“ En ástæðan var að lærið passaði ekki í gamla pottinn sem var fyrir löngu búið að henda og vandamálið ekki lengur til staðar.
Hefðir eru margar hverjar mjög skemmtilegar og um að gera að halda í þær eins lengi og við getum, sér í lagi þegar þær veita okkur gleði og hamingju.
Aðventan getur verið tími þar sem gert er vel við sig og sína. Farið er út að borða saman, á jólahlaðborð, farið í bæjarferð og jólainnkaupin kláruð. Tala nú ekki um laufabrauðs- og smákökugerðina með tilheyrandi ilm sem færir okkur minningar úr æsku. Aðventan er tími þar sem okkar eigin hefðir blandast við hefðir annarra og úr því verður samfélag sem einkennist af gleði og spennu fyrir komandi hátíð.
Þessi spenna verður líka til þess að tíminn virðist oft á tíðum líða ofurhægt og það á sér í lagi við fyrir börnin.
Rétt eins og við sem erum fullorðin nota börnin aðventuna til að telja niður til jóla. Þau gleðjast yfir öllum jólaskreytingunum og ljósunum sem gefa frá sér spennandi birtu og svo ég tali nú ekki um ef jólasnjórinn lætur sjá sig. Aðventan er fyrir þeim langur biðtími þar sem biðin eftir jólunum, pökkunum, tímanum með fjölskyldunni og líklega jólafríinu frá skólanum verður allt að því yfirþyrmandi.
Og í öllum þessum spenningi verður biðin löng.
Þegar við hugsum um það hvort biðin sé okkur löng þá fer það auðvitað eftir því hvort okkur finnist til dæmis jólin skemmtilegur tími eða ekki. Sá sem þolir illa jólahátíðina hlakkar væntanlega ekki mikið til og því lítið að bíða eftir, en hlakki þú til jólahátíðarinnar verður oft mjög erfitt að bíða.
Á aðventunni erum við alltaf að bíða eftir einhverju. Við bíðum eftir að komast á jólatónleikana, við bíðum eftir að sjá kveikt á jólatrénu, við bíðum eftir að klára jólaundirbúninginn og við bíðum eftir að komast á jólahlaðborðið og raða kræsingunum í okkur í óhóflegu magni. Sem síðar kostar okkur reyndar „kjötsvita“ með tilheyrandi samviskubiti og loforðaflaum um að endurtaka ekki leikinn að ári. Sem líkur eru á að gleymist þó jafn skjótt. En síðast en ekki síst þá bíðum við eftir jólunum. Þá byrjum við á því að telja niður vikurnar og svo dagana í spenningi eftir komu sjálfrar jólahátíðarinnar.
En ímynd aðventunnar og jólahátíðarinnar er vissulega afskaplega rómantísk og kannski viljum við bara hafa hana þannig. Flestar, ef ekki allar, auglýsingar sem við sjáum snúast um það að allt sé hreint og fínt, snjórinn nýfallinn og hvítur, arineldurinn á fullu og við sitjum ýmist eða liggjum undir hlýju teppi með heitt kakó og smákökur horfandi á sjónvarpið eða með bók í hendi. Allt gert í fullkominni afslöppun og rólegheitum.
Þetta er vissulega falleg og eftirsóknarverð mynd, en er þetta raunhæf ímynd?
Svarið við því fyrir okkur flest er án efa nei. Raunhæfari mynd væri eflaust sú að krakkarnir væru hlaupandi um í sykurvímu, yfir sig spenntir að komast í nýju leikföngin. Mynd þar sem fullorðna fólkið og unglingarnir komast varla á fætur fyrir hádegi af þreytu eftir aðventuna og auðvitað spennufallið sem fylgdi sjálfum aðfangadegi. En svo, loksins þegar við komumst fram úr, fallast okkur hendur þegar við sjáum að það er enn allt á rúi og stúi eftir hátíðarkvöldverðinn og fljótlega þarf að gera allt klárt á ný fyrir jólaboð dagsins.
Ímynd aðventunnar er margslungin og er eflaust blanda af þessum báðum og fleiri til. Ímynd sem við hugsum til og fær okkur oftar en ekki til þess að hlakka til þessarar löngu en um leið góðu hátíðar sem snertir okkur öll.
Aðventan og jólin eru sannarlega hátíð ljóss og friðar, hátíð barnanna, hátíð gleði og hamingju.
En við eigum ekki öll ánægjulegar minningar af jólunum eða aðventunni. Sum okkar finna fyrir kvíða og ótta. Fráfall einhvers nákomins getur valdið því að sorg og söknuður gerir vart við sig og sé fjárhagurinn ekki eins og við óskum okkur getur verið erfitt að sjá gleðina sem þó fylgir jólunum.
Þá geta hugsanir eins og „Ef ég hefði bara…“ eða „ef ég hefði ekki…“ nú eða jafnvel „hvað ef…“ komið upp í hugann. Þessar hugsanir eru ósköp eðlilegar en geta verið mjög erfiðar við að eiga. Fjölmörg ráð eru til sem hjálpa en af þeim er líklegast nauðsynlegast að muna eftir því að næra sig vel, huga að hvíldinni og auðvitað að reyna að tala um þær tilfinningar við einhvern sem við treystum. Þannig léttum við birgðirnar og um leið á ljósið og gleði jólanna örlítið auðveldari leið að okkur.
Það krefst mikils hugrekkis að takast á við erfiðu tilfinningarnar, en verðlaunin sem við hljótum þegar við gerum það eru ótvíræð og þegar líður hjá finnum við gleðina á ný.
„Verið óhræddir, sjá ég boða yður mikinn fögnuð“
Þessi orð englanna um að vera óhrædd og finna hjá okkur gleðina sem fylgir fréttunum um fæðingu frelsarans eru ómetanleg. Þessi orð getum við tekið sem hvatningarorð til okkar, ekki aðeins á aðventu og jólum, heldur á hverjum degi og gengið óhrædd og hugrökk út í daginn.
Fæðing Jesú Krists breytti allri heimsmyndinni. Þessi langa bið Maríu og Jósefs eftir Jesú litla var loksins á enda. Nú voru þau þrjú þarna ekki á gistiheimili heldur meðal húsdýra. Þau voru ekki heldur þarna að eigin frumkvæði heldur voru þau að hlýða kalli landstjórans. Þau voru ekki með neitt aukalega en samt voru þau hamingjusöm og ánægð. Þegar öllu var á botninn hvolft þá gerðu þau sitt besta og óafvitandi héldu þau hin fyrstu jól saman.
Nú nálgast jólin og þér er boðið að taka þátt og gleðjast með öllum heiminum. Gleðjast yfir fréttinni af fæðingu frelsarans, gleðjast yfir fréttinni af því þegar Guð kom í heiminn til okkar sem lítið ósjálfbjarga barn.
„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Megi Guð gefa þér og þínum gleðilega jólahátíð.
Sr. Ingimar Helgason

