6.1 C
Selfoss

Óvissan er helmingurinn af fjörinu

Vinsælast

Hið vinsæla Jólahjól Stuðlabandsins snýr aftur í desember, að þessu sinni á Hótel Selfoss. Tónleikarnir fara fram dagana 12., 13. og 20. desember og er nú þegar orðið uppselt á tvö kvöld.

„Stemningin er ótrúlega góð og svolítið spennuþrungin. Það er mikið þakklæti í hópnum yfir því að geta sett þessa tónleika á laggirnar á ný og mikil tilhlökkun,“ segir Marínó, trommari Stuðlabandsins, í viðtali við Dagskrána.

Fyrstu tónleikar streymdir í COVID

Stuðlabandið sendi fyrstu útgáfu af Jólahjólinu í loftið í beinni útsendingu annan í jólum árið 2020, þegar samkomubann og takmarkanir vegna COVID leiddu til þess að tónleikarnir færðust yfir á stafrænan vettvang.
„Þetta byrjaði sem grín í COVID þegar við vorum að gera streymi og vildum gera eitthvað öðruvísi. Það voru streymi hverja helgi á þessum tíma þar sem allir voru að gera venjulega tónleika en við vildum gera eitthvað sem myndi brjóta aðeins upp þetta hefðbundna form,“ segir Marínó.
Á eftir fylgdi Áramótahjólið á nýársnótt og hefur hvoru tveggja slegið rækilega í gegn hjá gestum.

Af hverju Jólahjól?

Hugtakið hjól er ekki komið af ástæðulausu, heldur lýsir það eðli tónleikanna; Lukkuhjól á sviðinu stýrir dagskrá tónleikanna að stórum hluta og tryggir að engir tónleikar séu eins. Tónleikarnir geta því alltaf tekið óvænta og skemmtilega stefnu. Óvissa, húmor og tónlistarlegur fjölbreytileiki eru grunnstoðir Jólahjólsins. Tónleikagestir hafa látið afar vel af sinni upplifun við tónleikana og eru þeir orðnir fastur liður margra Sunnlendinga ár hvert.

Leynigestir munu líkt og áður stíga á svið og aldrei kemur sami leynigesturinn fram tvö kvöld í röð. Gjörningalistamaðurinn Matthías verður á sínum stað og er líklegur til að hrista vel upp í hlutunum. „Við vitum ekki alveg hvað hann gerir, og það er stór hluti af gleðinni,“ segir bandið. „Matthías er einn stærsti óvissuþáttur í þessu. Honum er best lýst sem gjörningalistamanni. Það veit enginn hvaða atriði hann hefur undirbúið annar en hann sjálfur.“  

Spennandi endurkoma

Tónleikarnir voru haldnir á Sviðinu á Selfossi árin 2022 og 2023 en hlé var gert á tónleikaröðinni í fyrra þegar Magnús Kjartan greindist með bráðahvítblæði og beindi kröftum sínum að meðferð og bata.

Nú er tónleikaröðin komin aftur og verður í ár haldin á Hótel Selfoss með Magnús Kjartan fremstan í broddi fylkingar.

Fyrstu tvö kvöldin, 12. og 13. desember, býður Hótel Selfoss upp á sérvalinn þriggja rétta hátíðarkvöldverð sem verður framreiddur áður en jólapartýið hefst. Sú samsetning hefur vakið mikla ánægju en það er uppselt bæði kvöldin 12. og 13. desember.

Að auki heldur Stuðlabandið áfram sinni árlegu hefð og býður fólki á Suðurlandi með sérþarfir og aðstandendum þeirra á aukatónleika þann 20. desember kl. 14.00.
„Okkur hefur þótt það mikilvægt að bjóða þessum hóp á tónleika. Þau eru fyrst og fremst sjúklega skemmtileg og þetta verða oft eftirminnilegustu tónleikarnir hjá okkur. Gleðin hjá þeim er alveg gríðarlega smitandi,” segir Marínó.

Dagsetningar tónleikanna:

  • desember – uppselt
  • desember – uppselt
  • desember – lausir miðar

Miðasala fer fram á Studlabandið.is

Kaupa miða:
Stuðlabandið

Fyrir þá sem rétt eru að spá í að mæta síðasta kvöldið – af hverju ættu þau að mæta?
„Af því þessir tónleikar eru bara svo skemmtilegir. Þarna erum við að vinna aðeins meira með gleði og stemningu frekar en hátíðleikann. Það er gott að lyfta sér aðeins upp svona rétt fyrir jólin. Það er uppselt 12. – og 13. desember þannig að ef fólk vill upplifa þetta, þá er 20. desember kvöldið,“ segir Marínó að lokum.

SEG

Nýjar fréttir