Á árinu hefur EKKO-teymi í FSu, í nánu samstarfi við nemendur, unnið markvisst að því að styrkja fræðslu og forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu ofbeldi og ofbeldi (EKKO-málum). Lykilatriðið hefur verið að halda málefninu lifandi í skólasamfélaginu, endurmeta reglulega hvernig við vinnum og tryggja að raddir nemenda heyrist skýrt í þeirri vegferð.

Í stórum skóla með áfangakerfi og um þúsund nemendur í dagskóla getur verið áskorun að ná til breiðs hóps nemenda. Nýttar voru fjölbreyttar leiðir til þess að ná til og virkja nemendur í vinnunni. Unnið var náið með nemendaráði með sérstakri áherslu á nálgun í forvörnum. Nemendur í kynjafræðiáfanga voru beðnir um að segja sína skoðun á framsetningu nýs EKKO efnis og lögð var könnun fyrir alla nemendur þar sem þeir voru beðnir um að segja hvað þeim þætti mikilvægt varðandi góð samskipti. Ein dýrmætasta afurð verkefnisins undanfarna mánuði voru ummælin sem nemendurnir sjálfir lögðu fram, orð sem minna á að litlu gjörðirnar eru oft þær sem skipta mestu og að öll geta lagt sitt af mörkum til að skapa gott skólasamfélag.

Á degi gegn einelti var tekin stutt knúspása úr kennslustund þar sem kærleikshringur nemenda og starfsfólks var myndaður utan um gula skólann okkar í nóvemberkuldanum. Knúspásan var táknrænn gjörningur og fallegur vitnisburður um samvinnu þar sem hver hlekkur skiptir máli þegar kemur að jákvæðum samskiptum.
Samanlagt hafa mörghundruð nemendur komið að EKKO vinnunni undanfarna mánuði með einum eða öðrum hætti og er óhætt að segja að rödd þeirra hafi skilað sér skýrt og af krafti inn í vinnuna.

Ein afurð þessarar samvinnu er nýútkominn EKKO-bæklingur skólans. Bæklingurinn hefur fjölbreytt gildi en auk upplýsinga um forvarnir, áætlanir og stuðning í EKKO-málum er hann hannaður til að nýtast í kennslu og sem umræðugrundvöllur í skólastarfi. Nemendur komu að gerð bæklingsins, m.a. með myndskreytingum og eigin setningum um mikilvægi góðra samskipta.
Markmiðið er að „jákvæður nóvember“ verði árleg hefð í skólanum, þar sem forvarnir í EKKO-málum og góð samskipti eru í lykilhlutverki. Að leiðarljósi höfum við orð nemendanna sjálfra: „Það er mikilvægt að við öll, bæði nemendur og starfsfólk, vinnum saman að því að skapa vinsemd og traust í skólanum. Þá verður skólinn betri staður.“
Í EKKO teyminu eru Halla Dröfn félagsráðgjafi FSu og Agnes, Anna Fríða og Bjarney námsráðgjafar skólans

