2.6 C
Selfoss

Viðburðarveisla í Blómaborg á aðventunni

Vinsælast

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson, ásamt fríðu föruneyti, mun halda fjölbreytta viðburðarröð í Blómaborg í Hveragerði á aðventunni og yfir áramótin. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á fjölmörgum tónleikum, ljóðakvöldi, jólamarkaði og möntrukvöldum.

Aðventuveislan í Blómaborg hefst á fyrsta í aðventu með kraftmiklum tónleikum Jónasar Sig og ryþmabræðrum hans, Arnari Gíslasyni, trommuleikara og Guðna Finnssyni, bassaleikara.

Þeir þrír hafa flutt tónlist saman síðan þeir ferðuðust saman hringinn í kringum Ísland á viðarbátnum Húna um árið. Mugison stígur á stokk og mánaðarlegu möntrukvöldin verða á sínum stað. Ljóðakvöld í Blómaborg á aðventunni er orðinn árlegur viðburður þar sem skáld-og höfundar koma fram og lesa ljóð og smásögur. Þar að auki verður kósýkvöld með tónlistarkonunni Kristrúnu Kristjáns, hin árlegi jólamarkaður Blómaborgar verður á sínum stað og árinu verður síðan lokað með goðsögninni Magnúsi Þór Sigmundssyni.

„Ég er mjög peppaður með þetta allt saman,” segir Jónas um viðburðarröðina. „Við keyptum Blómaborg og fluttum til Hveragerðis fyrir tveimur árum og höfum verið að koma þessu öllu á sinn stað, hægt og rólega. Markmiðið var alltaf að gera eitthvað fallegt, heilandi og skemmtilegt fyrir samfélagið og þessir viðburðir sem við erum að standa fyrir eru klárlega þáttur í því að sá draumur verði að veruleika. Eitt skref í einu.“

Allir viðburðirnir hefjast klukkan 20.00 fyrir utan jólamarkaðinn, laugardaginn 6. desember, sem stendur frá 10.00 – 16.00. Takmarkaður miðafjöldi er á hvern og einn viðburð. Nánari upplýsingar og miðasala er á heimasíðu Blómaborgar.

Sjá heimasíðu:
Blómaborg

Nýjar fréttir