2.6 C
Selfoss

Friður í hjörtum og virðing í orðum

Vinsælast

Aðventan er tími hefða, hlýju og endurnærandi samveru, en hún er einnig tími íhugunar. Við sem búum í íslensku samfélagi megum ekki gleyma því hve mikil forréttindi það eru að búa við öryggi, lýðræði og frelsi. Við vitum að víða um heim búa fjölskyldur við allt aðrar aðstæður; þar sem friður er ekki sjálfgefinn og framtíðin óviss. Það minnir okkur líka á að þakka fyrir það sem við höfum og rækta þá manngæsku sem samfélag okkar byggist á. Oft er það einmitt á aðventunni sem við sýnum okkar bestu hliðar; stöndum saman, hjálpumst að. Það er nefnilega með samtakamætti sem við erum stöndugri og með samvinnu eru okkur allir vegir færir.

Nú þegar við stöndum á þröskuldi jóla vona ég að við getum sameinast um að finna frið í hjörtum okkar og í samskiptum hvert við annað. Með umhyggju, virðingu og samstöðu varðveitum við þau gildi sem gera samfélag okkar sterkt, friðsælt og gott.

Samfélagið okkar er samfélag okkar allra. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála um alla hluti, enda væri það óeðlilegt, en við megum ekki hræðast það að koma skoðunum okkar á framfæri, af ótta við t.d. harkaleg viðbrögð á samfélagsmiðlum en þeir miðlar eru líklega eini staðurinn á landinu þar sem teljandi ófriður ríkir. Berum virðingu hvert fyrir öðru, reynum að setja okkur í spor annarra og sýnum sjálfum okkur og öðrum mildi. Manneskja sem ekki er sammála okkur er ekki slæm manneskja, hún sér hlutina einfaldlega í öðru ljósi en við. Sem getur verið ómetanlegur kostur.

Mig langar að nefna börnin okkar í þessu samhengi. Hér á Suðurlandi eigum við frábæra skóla, fyrir börn á öllum aldri. Ef ég mætti fá eina jólaósk uppfyllta myndi ég óska þess að fjölmiðla- og stjórnmálafólk talaði um börnin okkar af meiri virðingu og yfirvegun. Það að hrópa sífellt á torgum að börnin okkar standi jafnöldrum sínum í öðrum löndum langt að baki á öllum sviðum – og ljóst sé að skólarnir sem þau ganga í séu með öllu ómögulegir – hljómar fyrir mér miklu frekar sem ástæða til að vekja athygli á sjálfum sér; selja smelli á samfélagsmiðlum eða ná sér í atkvæði – fremur en uppbyggileg gagnrýni. Þessi óvægna umræða dynur á börnunum okkar meira og minna alla daga – og er þeim ekki til nokkurs gagns.

Og talandi um börnin okkar: Ný afstaðin Góðgerðavika Grunnskólans í Hveragerði sló að venju fallegan tón inn í aðventuna. Þar höfum við séð ár eftir ár hvað samtakamátturinn getur gert. Stórar upphæðir hafa þar safnast til góðgerðamála sem börnin hafa sjálf fengið að velja – og þeir peningar hafa örugglega hjálpað mörgum sem hafa átt um sárt að binda. En það að gleðja og styðja við aðra kostar ekki alltaf peninga. Tími, hlý orð, skilningur, útrétt hönd eða bara lítið bros getur svo sannarlega dimmu í dagsljós breytt. Það kostar nefnilega ekki neitt að sýna náungakærleik.

Með þessum orðum langar mig að hvetja okkur öll til að líta í kringum okkur og gleðja fólkið okkar á aðventunni. Samtal og samvera nærir okkur öll. Kæru ungu íbúar Suðurlands: Ég hvet ykkur sérstaklega til að fara í heimsókn til ömmu eða afa, ég veit að bara eitt lítið símtal eða stutt heimsókn myndi gleðja þau mjög.

Að lokum vil ég óska ykkur kæru Sunnlendingar gleðilegra jóla, farsældar á komandi ári og innilegar þakkir fyrir það liðna. Megið þið eiga dýrmætar samverustundir með fólkinu sem ykkur þykir vænt um.

Sandra Sigurðardóttir
Oddviti Okkar Hveragerðis
Forseti bæjarstjórnar

Nýjar fréttir