2.9 C
Selfoss

Fasteignagjöldin í Hveragerði hækka

Vinsælast

Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar hefur nú lagt fram fjárhagsáætlun sem gengur meðal annars þvert á samþykkt bæjarráðs frá því í sumar. Þar var samþykkt tillaga D-listans um að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda og fækka gjalddögum úr 11 í 10. Nú, í fjárhagsáætlun ársins fyrir 2026, verður hvorugt gert og munu því fasteignagjöld í Hveragerði hækka umtalsvert á næsta ári.

Þetta gerist á sama tíma og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur birt nýtt fasteignamat þar sem íbúðarhúsnæði í Hveragerði hækkar um 10,1% og atvinnuhúsnæði um 11,7%. Þetta er veruleg hækkun milli ára og langt umfram það sem var á milli 2024 og 2025, enda hækkaði þá fasteignamatið um 3,4% á íbúðarhúsnæði og 7,9% á atvinnuhúsnæði og ekki reyndist jafn mikil þörf á að bregðast við. Ef álagningarhlutfallið helst nú óbreytt, hækka fasteignagjöldin sjálfkrafa að meðaltali í Hveragerði um þessa hækkun fasteignamats.

Það væri eitt ef sveitarfélagið væri þröngt stakkinn búinn. En svo virðist ekki vera. Fjárhagsáætlun meirihlutans gerir ráð fyrir rekstrarafgangi upp á yfir 500 milljónir króna. Þrátt fyrir þetta telur meirihlutinn sig ekki geta lækkað fasteignagjöldin, þrátt fyrir samþykktina frá því í sumar.

Hvergerðingar hafa séð hvernig þróun fasteignagjalda á þeirra fasteignum hefur verið síðustu ár. Fasteignamat í bænum hefur hækkað langt umfram verðbólgu í mörg ár. Árin 2018–2020 hækkaði matið um 18%, 21% og 12,5%, en þó að fasteignamatið hafi hækkað mikið þessi ár þá lækkaði þáverandi meirihluti D-listans álagningarprósentur til að koma til móts við hækkandi fasteignamat. Árið 2023 kom svo 32,3% hækkun, sú hæsta á landinu og var þá brugðist við eftir ábendingar okkar á D-listanum. Nýja matsbreytingin fyrir 2026 bætist nú ofan á fyrri hækkanir án þess að lækkun álagningar komi á móti.

Það er því ekki spurning um hvort það sé hægt að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda. Það er spurning um hvort meirihlutinn vilji gera það og þau hafa enn tækifæri til þess.

Friðrik Sigurbjörnsson
Oddviti D-listans í Hveragerði

Nýjar fréttir