Nú er jólabókaflóðið skollið á og meðal þeirra bóka sem nýlega hafa litið dagsins ljós er skáldsagan Mzungu eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora og fjölskylduhrollvekjan Blaka eftir Rán Flygenring, gefnar út af bókaforlaginu Angústúru.
Í tilefni útgáfanna munu höfundarnir heimsækja Bókasafn Árborgar þann 27. nóvember, þar sem þær kynna verk sín og lesa upp úr þeim. Rán Flygenring kemur kl. 16:00 og Þórunn Rakel kl. 17:00.
Um Mzungu

Eftirvænting ríkir í loftinu þegar Hulda kemur til Kenía þar sem hún ætlar að starfa á heimili fyrir munaðarlaus börn. Íslendingurinn Skúli er í forsvari fyrir heimilið og virðist stýra því af miklum myndarskap og hlýju. Þegar líða tekur á dvölina fer Huldu þó að gruna að ekki sé allt með felldu.
Mzungu er hörkuspennandi og áleitin frásögn um hvert góður vilji og löngun til að bæta heiminn getur leitt. Verðlaunahöfundurinn Þórunn Rakel Gylfadóttir og Simon Okoth Aora meðhöfundur hennar draga af næmni og skarpskyggni upp æsilega atburðarás byggða á sönnum atburðum um líf og örlög fólks í Kenía.
Um Blöku

Í svartasta skammdeginu undirbúa Vaka, Kókos og pabbi sig fyrir sólarlandaferð. Þau ætla að heimsækja vatnsrennibrautagarð, taka þátt í sandkastalakeppni og belgja sig út af ís. En þegar þau koma auga á rammvillta leðurblöku flögrandi í húminu grípur um sig skelfing í borginni og áform þeirra fljúga út í veður og vind. Óhrædd við myrkrið tekur Vaka afdrifaríka ákvörðun sem snýr veröldinni á hvolf.
Rán Flygenring er einn þekktasti myndabókahöfundur landsins. Síðasta bók hennar, Tjörnin, seldist upp eins og skot og hlaut fjöldamörg verðlaun. Rán fékk jafnframt Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2023 fyrir bókina Eldgos.

