2.9 C
Selfoss

Farsælasti keppnishestur í sögu Hestamannafélagsins Sleipnis

Vinsælast

Stjórn hestamannafélagsins Sleipnis heiðraði einn af fremstu afrekshestum sem komið hefur úr ræktun og eigu Sleipnisfélaga

hinn magnaða Krókus frá Dalbæ. Krókus hefur hlotið fleiri viðurkenningar hjá Sleipni en nokkur annar hestur í sögu félagsins.

Árið 2014 varð hann hæst dæmdi kynbótahestur úr ræktun Sleipnisfélaga og hlaut Ræktunarbikar Sleipnis með 8,19 fyrir byggingu, 8,90 fyrir hæfileika (þar af 10 fyrir skeið) og í aðaleinkunn 8,60.

Á árunum 2014-2018 vann Krókus fjórum sinnum hinn virta Sleipnisskjöld sem er ein elsta og æðsta viðurkenning félagsins og jafnaði þar með sigurgöngu Þyts frá Kálfhóli.

Árið 2019 var hann aðeins hársbreidd frá sigri og endaði í 2. sæti á þriðja aukastaf.

Krókus keppti tvisvar á Landsmóti hestamanna í A-flokki (2016 og 2018) og komst í A-úrslit í bæði skiptin. Síðustu ár er hann ekki aðeins þekktur sem afburða gæðingur heldur einnig sem einn hraðskreiðasti skeiðhesturinn, auk þess sem hann hefur sannað sig í S

slaktaumatölti. Hann sameinar kraft, reisn, rými og fegurð – allt sem við dáum við íslenska hestinn.  Hefur einnig orðið tvisvar sinnum Íslandsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum.

Frá 2019 til dagsins í dag hefur Krókus verið með bestu tíma hests í eigu Sleipnisfélaga í 100 og 250 m skeiði, annað hvort í báðum greinum eða annarri.

Árið 2024 urðu Sigursteinn og Krókus Íslandsmeistarar í 250 m skeiði og í 2. sæti í 100 m skeiði.

Til að toppa frækinn keppnisferil kepptu þeir fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramóti Íslenska hestsins í Sviss síðastliðið sumar og unnu til silfurverðlauna bæði í 100 og 250 m skeiði á frábærum tímum – sannarlega magnaður árangur.

Þau hjá Sleipni þakka Ara, Ingunni og Sigursteini fyrir að hafa ávallt komið fram í nafni Hestamannafélagsins Sleipnis og leyft þeim, unnendum íslenska hestsins, að njóta þess að sjá sannan íslenskan gæðing.

Nýjar fréttir