3.5 C
Selfoss

Dreymir um að syngja með Stebba Hilmars

Vinsælast

Sigurður Emil Pálsson, 17 ára frá Flúðum, bar sigur úr býtum í söngvakeppni Menntaskólans að Laugarvatni, Blítt og Létt, sem haldin var 6. nóvember sl. með glæsibrag. Sigurður mun því keppa fyrir hönd ML í Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður næsta vor.

„ML er lífið“

Sigurður, eða Siggi eins og hann er alltaf kallaður, er á öðru ári á félags- og hugvísindabraut við Menntaskólann að Laugarvatni þar sem hann skemmtir sér vel. „Ég elska ML, alltaf,“ Siggi lýsir félagslífinu og vináttunni sem ríkir í ML sem bestu árum lífs síns.

Siggi á ekki í vandræðum með að lýsa sjálfum sér. Hann syngur, finnst gaman að leika á sviði, spilar körfubolta og æfir blak. Á milli þess stýrir hann leikriti ársins hjá leikfélagi Menntaskólans að Laugarvatni.

Siggi er árshátíðarformaður innan Stjórn Mímis, nemendafélags Menntaskólans að Laugarvatni, ásamt honum Fannari Óla Ólafssyni. Saman gegna þeir því starfi að leikstýra leikriti skólans sem verður frumsýnt næsta vor. Að þessu sinni er leikhópurinn að setja upp leiksýninguna Gauragangur. Siggi er afar spenntur fyrir þessu verkefni sem er nú þegar hafið en finnst smá svekkjandi að fá ekki að vera á sviði að leika sjálfur. „Mér finnst skemmtilegast í öllum heiminum að fá að koma fram á sviði.“

Stjórn Mímis 25-26 nemendafélag ML þar sem Sigurður er árshátíðarformaður. Mynd: Aðsend.

Uppgötvar rödd sína

Það er ekki langt síðan Siggi uppgötvaði áhuga sinn á söng en Siggi segir sig sjálfan ekkert hafa verið sérstakur söngvari fyrir nokkrum árum. Með endalausu rauli og æfingu á píanóleik í einrómi fóru hjólin að snúast. Það má þó segja að reynsla hans á söng hafi ekki hafist fyrr en hann hóf skólagöngu sína við ML.

Hans fyrstu skref á sviði tók Siggi í fyrra þegar hann tók þá ákvörðun að keppa á Blítt og Létt í fyrra með vini sínum Vésteini Loftssyni þar sem þeir tóku lagið Ekkert breytir því með Sálinni hans Jóns míns. Þátttakan tók óvænta stefnu og lentu vinirnir í þriðja sæti á keppninni með prýði. „Eftir það var ég bara heltekinn og gat ekki hætt að syngja,“ segir Siggi.

Siggi segir að þá hafi ekki verið aftur snúið og hefur hann verið að syngja hástöfum síðan þá. Í byrjun haustannarinnar í ár hóf hann söngnám hjá Stefáni Þorleifssyni sem sér einnig um kórstjórn Menntaskólans að Laugarvatni. Hann segir söngnámið vera að aðstoða sig heilmikið.

Á Blítt og Létt í ár tók Siggi lagið Sumar konur eftir Bubba Morthens en ákvörðunin um lagið féll ekki fyrr en á síðustu stundu. Hann hafði uppgötvað lagið þegar hann sá vin sinn syngja það í TikTok-myndbandi og heillaðist strax af því. Hljómsveitin Stones Stones spilaði undir og lagið söng Siggi glæsilega enda sigurvegari keppninnar.

Aðdragandi keppninnar virtist stressandi fyrir Sigga og bjóst hann alls ekki við að vinna þar sem hann hafði verið veikur með hálsbólgu og nýlega greinst með berkjubólgu. „Ég var ótrúlega efins rétt fyrir keppnina út af veikindunum en svo hugsaði ég bara að þetta skipti engu máli, ef ég yrði falskur myndi það gleymast,“ segir Siggi.

Spennandi tímar framundan

Siggi er spenntur að fá að keppa fyrir hönd ML í söngkeppni framhaldsskólanna næsta vor. „Það er svo mikill heiður,“ segir hann, „ég er smá stressaður en samt ekki því ég er líka búinn að ná öllu sem ég ætlaði mér, og miklu meira en það.“

Þó söngurinn hafi komið tiltölulega nýlega inn í líf Sigga er það sviðsframkoman sjálf sem hann tengir hvað sterkast við. Honum finnst ekkert skemmtilegra en að skemmta á sviði fyrir framan áhorfendur. Hann vill meina að áhugi hans fyrir sviðslistinni hafi gert hann að virkum þátttakanda í félagslífi skólans, hvort sem það er í söng, leiklist eða ýmsum öðrum verkefnum. „Ég er athyglissjúkur í réttu orðunum,“ segir hann og brosir.

Áframhaldandi söngferill

Sigurður sér sönginn klárlega sem eitthvað sem hann vill halda áfram með.
„Ég væri alveg til í að gera eitthvað með þetta í framtíðinni ef ég fæ tækifæri.“ Sigga langar í framtíðinni að gefa út sitt eigið og hefur verið að æfa sig í að semja.

Aðspurður um hver hans helsta fyrirmynd sé talar Siggi hlýlega til vina sinna sem hafa hjálpað honum að koma sér inn í tónlistina. Hann segir þó að enginn toppi Stefán Hilmarsson. „Fyrirmyndin mín er klárlega Stebbi Hilmars, ég dýrka lögin hans og hvernig hann syngur,“ segir Siggi. Siggi segir að ef hann fengi að syngja með hvaða tónlistarmanni sem er, þá væri það Stebbi Hilmars.

Að lokum

„Ekki vera hrædd við að fara upp á svið,“ segir Sigurður að lokum. Hann segir að ef maður nýtur þess að gera eitthvað sérstakt eigi maður að taka á skarið og gera það. „Taktu öll tækifæri, hvort sem þau eru pínulítil eða risastór.“ Siggi bendir síðast en ekki síst á að einfaldlega hafa gaman. „Það er það sem lífið snýst um, að hafa gaman.“

Siggi lítur björtum augum á komandi tíma og hann er spenntur að sjá hvað verður úr eigin reynslu á að koma fram. Þegar Siggi lítur fram á við vonast hann þó fyrst og fremst að reynslan færi honum gleði, skemmtun og stolta mömmu og pabba í stúkunni að horfa á.

SEG

Nýjar fréttir