Hermundur Guðsteinsson er matgæðingur vikunnar.
Það skyldi enginn vanmeta systur sínar, svo mikið er víst. Oft hef ég horft á þennan dálk og óttast að önnur hvor systra minna myndi dúkka hér upp, vitandi að í kjölfarið gætu spjótin beinst að mér sem matgæðing. Það er freistandi að uppveðrast af nafnbótinni og arka sem drýldinn angurgapi um allar þorpagrundir. En þó svo að holdafarið beri með sér að ég kunni að gæða mér á mat, er full djúpt í árinni tekið að ég búi yfir matgerðarhæfileikum.
Mín matseld er í grunninn óljós hugmynd eða minning af því hvernig mamma gerði hlutina og svo er slumpað, dassað, slett og áætlað uns matseldin fer að taka á sig einhvers konar form þess sem kalla má mat.
Af þeim sökum ákvað ég að birta hér uppskrift af lifrarbuffi sem var reglulega á borðum á mínu æskuheimili. Lifrarbuff er einstaklega hollt og bragðgott.
250 grömm lambalifur
250 grömm hráar kartöflur
2 msk heilhveiti
1 – 1,5 laukur
50 gr smjör
Lifrin er hreinsuð og kartöflurnar flysjaðar. Allt er þetta hakkað saman með hentugu apparati.
Smjörið er brætt á pönnu og laukurinn brúnaður hressilega í því. Að því loknu er hann settur til hliðar.
Lifrardegið er sett á pönnuna í fagurmótuðum kökum, um 1-2 matskeiðar í hverri köku, og steiktar í 1-2 mínútur á hvorri hlið uns þær eru gegnsteiktar. Salti og pipar eða öðrum framandi kryddtegundum stráð yfir hvora hlið eftir smekk.
Lifrarbuffinu og lauknum er raðað á heitt fat, smjörið sem eftir er á pönnunni er soðið með um 1 dl. af vatni og smá kjötkrafti. Þessu er hellt yfir lifrarbuffið.
Best er að sjálfsögðu að bera lifrarbuff fram með brúnni sósu, kartöflumús, rauðkáli, grænum baunum og ríkulegri tuggu af heimalagaðri rabarbarasultu.
Að endingu er rétt að benda lesendum á leiðan fylgifisk lifrarbuffs, líkt og hrossbjúgna og sláturs, að raunveruleg hætta er á ofáti. Því mæli ég með því að gera ráð fyrir að liggja á meltunni að máltíð lokinni.
Mig langar að skora á Einar Þorfinnsson að deila með lesendum einhverju góðgæti úr sínum fórum.

